Brennu-Njáls saga
142. kafli


Nú líður þar til er dómar skulu út fara. Bjuggu þeir sig þá til hvorirtveggju og vopnuðust. Þeir gerðu hvorirtveggju herkuml á hjálmum sínum.

Þórhallur Ásgrímsson mælti: „Farið þér nú faðir minn að engu allæstir og gerið nú allt sem réttast. En ef nokkuð vandast í fyrir yður látið mig vita sem skjótast og skal eg þá gefa ráð til með yður.“

Þeir Ásgrímur litu til hans og var andlit hans sem í blóð sæi en stórt hagl hraut úr augum honum. Hann bað færa sér spjót sitt. Það hafði Skarphéðinn gefið honum og var hin mesta gersemi.

Ásgrímur mælti er þeir gengu í braut: „Eigi var Þórhalli frænda gott í hug er hann var eftir í búðinni og eigi veit eg hvað hann tekur til. Nú skulum vér ganga til með Merði Valgarðssyni,“ sagði Ásgrímur, „og láta fyrst sem ekki sé annað því að meiri er veiður í Flosa en í mörgum öðrum.“

Ásgrímur sendi þá mann til Gissurar hvíta og Hjalta Skeggjasonar og Guðmundar ríka. Þeir komu nú allir saman og gengu þegar til Austfirðingadóms. Þeir gengu sunnan að dóminum. Þeir Flosi og allir Austfirðingar með honum gengu norðan að dóminum. Þar voru og Reykdalir og Öxfirðingar og Ljósvetningar með Flosa. Þar var og Eyjólfur Bölverksson.

Flosi laut að Eyjólfi og mælti: „Hér fer vænt að og kann vera að eigi fari fjarri því sem þú gast til.“

„Lát þú hljótt yfir því,“ segir Eyjólfur. „Koma mun þar er vér munum þurfa þess að neyta.“

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta og bauð til hlutfalla öllum þeim mönnum er skóggangssakar áttu að sækja í dóminn, hver sína sök skyldi fyrstur fram segja eða hver þar næst eða hver síðast. Bauð hann lögboði að dómi svo að dómendur heyrðu. Þá voru hlutaðar framsögur og hlaut hann fyrst fram að segja sína sök.

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta í annað sinn. „Nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg tek miskviðu alla úr máli mínu hvort sem mér verður ofmælt eða vanmælt. Vil eg eiga rétting allra orða minna uns eg kem máli mínu til réttra laga. Nefni eg mér þessa votta eða þeim öðrum er neyta eða njóta þurfa þessa vættis.“

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta. „Nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum en handselda lögvörn hefir fyrir hann að hlýða til eiðspjalls míns og til framsögu sakar minnar og til sóknargagna þeirra allra er eg hygg fram að færa á hendur honum. Býð eg lögboði að dómi svo að dómendur heyra um dóm þveran.“

Mörður Valgarðsson mælti: „Nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg vinn eið að bók, lögeið, og segi eg það guði að eg skal svo sök þessa sækja sem eg veit sannast og réttast og helst að lögum og öll lögmæt skil af hendi inna meðan eg er að þessu máli.“

Síðan kvað hann svo að orði: „Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga Njálssonar þá er Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg tilfjórðungsdóms þess sem sökin á í að koma að lögum. Lýsti eglöglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hafði eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti.“

Mörður mælti: „Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti söká hönd Flosa Þórðarsyni um það er hann særði Helga Njálssonholundarsári eða heilundar eða mergundar því sári er að bengerðist en Helgi fékk bana af á þeim vettvangi er FlosiÞórðarson hljóp til Helga Njálssonar áður lögmætu frumhlaupi.Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg tilfjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsti eglöglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hefi eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti.“

Lýsingarvottar Marðar gengu þá að dómi og kváðu svo að orði að annar taldi vætti fram en báðir guldu samkvæði „að Mörður nefndi sér Þórodd í vætti en annan mig en eg heiti Þorbjörn“ - síðan nefndi hann föður sinn - „Mörður nefndi okkur í það vætti að hann lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd FlosaÞórðarsyni er hann hljóp til Helga Njálssonar á þeimvettvangi er Flosi Þórðarson veitti Helga Njálsson holundarsáreða heilundar eða mergundar það er að ben gerðist enHelgi fékk bana af. Taldi hann Flosa eiga að verða um sökþá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllumbjargráðum. Taldi hann sekt fé hans allt, hálft sér enhálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftirhann að lögum. Lýsti hann til fjórðungsdóms þess er sökinátti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing. Lýst hann í heyrandahljóði að Lögbergi. Lýsti hann nú til sóknar í sumar og til sektarfullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti hann handseldri sök ÞorgeirsÞórissonar. Hafði hann þau orð öll í lýsingu sinni sem hann hafði í framsögu sakar sinnar og við höfum í vættisburð okkrum. Höfum við nú rétt borið vætti okkart og verðum báðir á eitt sáttir. Berum við svo skapað lýsingarvætti þetta fram í Austfirðingadóm yfirhöfði Jóni sem Mörður kvað að þá er hann lýsti.“

Í annað sinn sögðu þeir fram í dóm lýsingarvætti og höfðu sár fyrr en frumhlaup síðar og höfðu öll orð önnur hin sömu sem fyrr og báru svo skapað lýsingarvætti þetta fram í Austfirðingadóm sem Mörður kvað að þá er hann lýsti.

Sakartökuvottar Marðar gengu þá að dómi og taldi annar vætti fram en báðir guldu samkvæði og kváðu svo að orði að þeir Mörður Valgarðsson og Þorgeir Þórisson nefndu þá í það vætti að Þorgeir Þórisson seldi vígsök í hendur Merði Valgarðssyni á hendur Flosa Þórðarsyni um víg Helga Njálssonar „seldi hann honum sök þá með sóknargögnum öllum þeim er sökinni áttu að fylgja. Seldi hann honum að sækja og að sættast á og svo allra gagna að njóta sem hann væri réttur aðili. Seldi Þorgeir með lögum en Mörður tók með lögum.“

Báru þeir svo skapað sakartökuvætti þetta fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem þeir Þorgeir og Mörður nefndu þá votta að. Alla votta létu þeir eiða sverja áður en vætti bæru og svo dómendur.

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta „í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð búum þeim níu, er eg kvaddi um sök þessa er eg höfðaði á hönd Flosa Þórðarsyni, til setu vestur á árbakka og til ruðningar um kvið þann. Býð eg lögboði að dómi svo að dómendur heyra.“

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta í annað sinn. „Nefni eg yður í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð Flosa Þórðarsyni eðaþeim manni öðrum er handselda lögvörn hefir fyrir hann tilruðningar um kvið þann er eg hefi saman settan vestur á árbakka.Býð eg lögboði að dómi svo að dómendur heyra um dóm þveran.“

Enn nefndi Mörður sér votta „í það vætti,“ sagði hann, „að nú eru frumgögn öll fram komin þau er sökinni eiga að fylgja: boðið til eiðspjalls, unninn eiður, sögð fram sök, borið lýsingarvætti, borið sakartökuvætti, boðið búum í setu, boðið til ruðningar um kvið. Nefni eg mér þessa votta að gögnum þessum sem nú eru fram komin og svo að því að eg vil eigi vera sókn horfinn þó að eg gangi frá dómi gagna að leita eða annarra erinda.“

Þeir Flosi gengu nú þangað til sem búarnir sátu.

Flosi mælti til þeirra: „Það munu Sigfússynir vita hversu réttir vettvangsbúar þessir eru er hér eru kvaddir.“

Ketill úr Mörk svarar: „Hér er sá búi er hélt Merði Valgarðssyni undir skírn en annar er þrímenningur hans að frændsemi.“

Töldu þeir þá frændsemina og sönnuðu með eiði. Eyjólfur nefnir sér votta að kviðurinn skyldi standa fyrst þar til er ruddur væri.

Í annað sinn nefndi Eyjólfur sér votta „í það vætti,“ sagði hann, „að eg ryð þessa menn báða úr kviðinum“ - og nefndi þá á nafn og svo feður þeirra - „fyrir þá sök að annar þeirra er þrímenningur Marðar að frændsemi en annar að guðsifjum þeim er kviðu eiga að ryðja að lögum. Eruð þið fyrir laga sakir ónýttir í kviðinum því að nú er rétt lögruðning til ykkar komin. Ryð eg ykkur úr að alþingismáli réttu og allsherjar lögum. Ryð eg handseldu máli Flosa Þórðarsonar.“

Nú mælti öll alþýða og kváðu ónýtt málið fyrir Merði. Urðu þá allir á það sáttir að þá væri framar vörn en sókn.

Ásgrímur mælti þá við Mörð: „Eigi er enn þeirra allt þó að þeir þykist nú hafa fast fram gengið og skal nú fara að finna Þórhall son minn og vita hvað hann leggi til.“

Þá var sendur skilríkur maður til Þórhalls og sagði sá honum vandlega frá hvar þá var komið máli, að þeir Flosi þóttust ónýtt hafa kviðinn.

Þórhallur mælti: „Það skal eg að gera að yður skal þetta ekki að sakarspelli verða. Og seg þeim að þeir trúi ekki þó að lögvillur séu gervar fyrir þeim því að vitringinum Eyjólfi hefir nú yfir sést. Skalt þú nú ganga til þeirra sem hvatlegast og seg að Mörður Valgarðsson gangi að dómi og nefni sér votta að ónýtt er lögruðning þeirra“ og sagði hann þá fyrir greinilega allt hversu þeir skyldu með fara.

Sendimaður fór og sagði þeim tillögur Þórhalls.

Mörður Valgarðsson gekk þá að dóminum og nefndi sér votta „í það vætti,“ sagði hann, „að eg ónýti lögruðning Eyjólfs Bölverkssonar. Finn eg það til að hann ruddi eigi við aðilja frumsakar heldur við þann er með sök fór. Nefni eg mér þessa votta eða þeim er njóta þurfa þessa vættis.“

Síðan bar hann vættið í dóm. Nú gekk hann þar til er búarnir sátu og bað þá niður setjast er upp höfðu staðið og kvað þá rétta vera í kviðinum. Mæltu þá allir að Þórhallur hefði mikið að gert og þótti þá öllum framar sókn en vörn.

Flosi mælti þá við Eyjólf: „Ætlar þú þetta lög vera?“

„Það ætla eg víst,“ segir Eyjólfur, „og hefir oss að vísu yfir sést. En þó skulum vér þetta þreyta meir með oss.“

Eyjólfur nefndi sér þá votta „í það vætti,“ sagði hann, „að eg ryð þessa tvo menn úr kviðinum“ - og nefndi þá báða á nafn - „fyrir þá sök að þið eruð búðsetumenn en eigi bændur. Ann eg ykkur eigi að sitja í kviðinum því að nú er rétt lögruðning til ykkar komin. Ryð eg ykkur úr kviðinum að alþingismáli réttu og allsherjar lögum.“

Kvað Eyjólfur sér nú mjög á óvart koma ef þetta mætti rengja.

Mæltu þá allir að þá væri vörn framar en sókn. Lofuðu nú allir mjög Eyjólf og kölluðu engan mann mundu þurfa að reyna við hann lögkæni.

Mörður Valgarðsson og Ásgrímur Elliða-Grímsson sendu nú mann til Þórhalls að segja honum hvar þá var komið. En er Þórhallur heyrði þetta spurði hann hvað þeir ættu sér góss. Sendimaður sagði að annar þeirra bjó við málnytu „og hefir bæði kýr og ær að búi en annar á þriðjung í landi því er þeir búa á og fæðir sig sjálfur og hafa þeir eina eldstó og hinn, er landið leigir, og einn smalamann.“

Þórhallur mælti: „Enn mun þeim fara sem fyrr að þeim mun hafa yfir sést og skal eg þetta allskjótt rengja fyrir þeim og svo þó að Eyjólfur hefði hér alldigur orð um að rétt væri.“

Þórhallur sagði nú sendimanni allt sem greinilegast hversu þeir skyldu með fara.

Kom sendimaður aftur og sagði Merði og Ásgrími ráð þau er Þórhallur hafði til lagið.

Mörður gekk þá að dómi og nefndi sér votta „í það vætti,“ sagði hann „að eg ónýti lögruðning Eyjólfs Bölverkssonar fyrir það er hann ruddi þá menn úr kviðinum er að réttu eiga í að vera. Er sá hver réttur í búakviði er hann á þrjú hundruð í landi og þaðan af meira þó að hann hafi enga málnytu. Hinn er og réttur í búakvið er hann býr við málnytu þó að hann eigi eigi land.“

Lét hann þá koma vættið í dóminn. Gekk hann nú þangað að er búarnir voru og bað þá niður setjast og kvað þá rétta í búakviðinum.

Þá varð óp mikið og kall og mæltu þá allir að mjög væri hrakið málið fyrir þeim Flosa og Eyjólfi og urðu nú á það sáttir að sókn væri framar en vörn.

Flosi mælti til Eyjólfs: „Mun þetta rétt vera?“

Eyjólfur lést eigi til þess hafa vitsmuni að vita það víst.

Sendu þeir þá mann til Skafta lögsögumanns að spyrja hann eftir hvort rétt væri. Hann sendi þeim þau orð aftur að þetta væru að vísu lög þó að fáir kynnu. Var þetta sagt þeim Flosa.

Eyjólfur Bölverksson spurði nú Sigfússonu að um aðra búa þá er kvaddir voru. Þeir kváðu vera þá fjóra er rangkvaddir voru „því að þeir sitja heima er nærri voru.“

Eyjólfur nefnir sér þá votta að hann ryður þá alla fjóra menn úr kviðinum og mælti réttum ruðningarmálum.

Síðan mælti hann til búanna: „Þér eruð skyldir til að gera hvorumtveggjum lög. Nú skuluð þér ganga að dómi þá er þér eruð kvaddir og nefna yður votta að þér látið það standa fyrir kviðburði yðrum að þér eruð fimm beiddir búakviðar en þér eigið níu að bera. Mun Þórhallur þá öllum málum fram koma ef hann bergur þessu við.“

Fannst það nú á í öllu að þeir Flosi og Eyjólfur hældust.

Gerðist nú rómur mikill að því að eytt væri vígsmálinu og nú væri vörn framar en sókn.

Ásgrímur mælti til Marðar: „Eigi vita þeir enn hverju þeir hælast fyrr en Þórhallur er fundinn son minn. Sagði Njáll mér svo að hann hefði svo kennt Þórhalli lög að hann mundi mestur lögmaður vera á Íslandi þó að reyna þyrfti.“

Var þá maður sendur til Þórhalls að segja honum hvar þá var komið og hól þeirra Flosa og orðróm alþýðu að þá væri eytt vígsmálinu fyrir þeim Merði.

„Vel er það,“ segir Þórhallur, „en enga fá þeir enn virðing af þessu. Skalt þú nú fara og segja Merði að hann nefni votta og vinni eið að því að meiri hlutur er rétt kvaddur. Skal hann þá láta koma vættið í dóm og bergur hann þá frumsökinni en sekur er hann þrem mörkum fyrir hvern þann er hann hefir rangt kvatt og má það ekki sækja á þessu þingi.“

Sendimaður fór nú aftur og sagði þeim Merði allt sem gerst frá orðum Þórhalls.

Mörður gekk að dómi og nefndi sér votta og vann eið að því að meiri hlutur var rétt kvaddur búanna. Kvaðst hann þá hafa borgið frumsökinni „skulu óvinir vorir af öðru hafa metnað en því að vér höfum hér mikið rangt í gert.“

Var þá rómur mikill að því ger að Mörður gengi vel fram í málinu en töldu Flosa og hans menn fara með lögvillur einar og rangindi.

Flosi spurði Eyjólf hvort þetta mundi rétt vera en hann lést það eigi víst vita og sagði lögsögumann úr því skyldu leysa.

Fór þá Þorkell Geitisson af þeirra hendi og sagði lögsögumanni hvar komið var og spurði hvort þetta væri rétt er Mörður hafði mælt.

Skafti svarar: „Fleiri eru nú allmiklir lögmenn en eg ætlaði. En þér til að segja þá er þetta svo rétt í alla staði að hér má ekki í móti mæla. En það ætlaði eg að eg einn mundi nú kunna þessa lagarétting nú er Njáll er dauður því hann einn vissi eg kunna.“

Þorkell gekk þá aftur til þeirra Flosa og Eyjólfs og sagði þeim að þetta voru lög.

Mörður Valgarðsson gekk þá að dómi og nefndi sér votta „í það vætti,“ sagði hann, „að eg beiði búa þá, er eg kvaddi um sök þá er eg höfðaði á hönd Flosa Þórðarsyni, framburðar um kvið að bera annaðtveggja af eða á. Beiði eg lögbeiðingu að dómi svo að dómendur heyra um dóm þveran.“

Búar Marðar gengu þá að dómi. Taldi einn fram kviðinn en allir guldu samkvæði og kvað svo að orði: „Mörður Valgarðsson kvaddi oss kviðar þegna níu en vér stöndum hér nú þegnar fimm en fjórir eru úr ruddir. Hefir nú vottorð komið fyrir þá fjóra er bera áttu með oss. Skylda nú til lög að bera fram kviðinn. Vorum vér kvaddir að bera um það hvort Flosi Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga Njálssonar á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Kvaddi hann oss þeirra orða allra er oss skylda lög til um að skilja og hann vildi oss að dómi beitt hafa og þessu máli áttu að fylgja. Kvaddi hann lögkvöð. Kvaddi hann svo að vér heyrðum á. Kvaddi hann um handselt mál Þorgeirs Þórissonar. Höfum vér nú allir eiða unnið og réttan kvið vorn og orðið á eitt sáttir, berum á Flosa Þórðarson kviðinn og berum hann sannan að sökinni. Berum vér svo skapaðan níu búa kvið þenna fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem Mörður kvaddi oss að. Er sá kviður vor allra.“ sögðu þeir.

Í annað sinn báru þeir kviðinn og báru um sár fyrr en um frumhlaup síðar en öll önnur orð báru þeir sem fyrr. Báru þeir á Flosa kviðinn og báru hann sannan að sökinni.

Mörður Valgarðsson gekk að dómi og nefndi sér votta að búar þeir, er hann hafði kvadda um sök þá er hann höfðaði á hönd Flosa Þórðarsyni, höfðu borið á hann kviðinn og borið hann sannan að sökinni. Nefndi hann sér þessa votta eða þeim er neyta eða njóta þyrftu þessa vættis.

Í annað sinn nefndi Mörður sér votta „nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum, er handselda lögvörn hefir fyrir hann, að taka til varna fyrir sök þá er eg höfðaði á hönd honum því að nú eru öll sóknargögn fram komin þau er sökinni eiga að fylgja að lögum, borin vætti öll og búakviður og nefndir vottar að kviðburði og öllum gögnum þeim er fram eru komin. En ef nokkur hlutur gerist sá í lögvörn þeirra er eg þurfi til sóknar að hafa þá kýs eg sókn undir mig. Býð eg lögboði að dómi svo að dómendur heyra.“

„Það hlægir mig nú Eyjólfur,“ sagði Flosi, „í hug mér að þeim mun í brún bregða og ofarlega kleyja þá er þú berð fram vörnina.“