Brennu-Njáls saga
32. kafli

Um vorið spurði jarl Gunnar hvað hann vildi láta ráða sinna. Hann kveðst vilja til Íslands.

Jarlinn kvað vera illa ært í landi „og mun vera lítil útsigling en þó skalt þú hafa mjöl og við í skip þitt sem þú vilt.“

Gunnar þakkaði honum og bjó skip sitt snemmendis. Hallvarður fór út með þeim Kolskeggi.

Þeir komu út snemma sumars og tóku Arnarbælisós og var það fyrir alþingi. Reið Gunnar þegar heim frá skipi en fékk menn til að ryðja skipið og fór Kolskeggur með honum. En er þeir komu heim urðu menn þeim fegnir. Þeir voru blíðir við heimamenn sína og hafði ekki vaxið dramb þeirra.

Gunnar spurði hvort Njáll væri heima. Honum var sagt að hann var heima. Lét hann þá taka hest sinn og reið til Bergþórshvols og Kolskeggur með honum. Njáll varð feginn komu þeirra og bað að þeir skyldu vera þar um nóttina. Þeir gerðu svo og sagði Gunnar frá ferðum sínum.

Njáll sagði hann vera hinn mesta afreksmann „og ert þú mjög reyndur en þó munt þú meir síðar því að margur mun þig öfunda.“

„Við alla vildi eg gott eiga,“ segir Gunnar.

„Margt mun til verða,“ segir Njáll, „og munt þú jafnan eiga hendur þínar að verja.“

„Undir því væri þá,“ segir Gunnar, „að eg hefði málaefni góð.“

„Svo mun og vera,“ segir Njáll, „ef þú geldur eigi annarra að.“

Njáll spurði Gunnar hvort hann mundi til þings ríða. Gunnar segir að hann mundi ríða og spyr hvort Njáll mundi ríða en hann kveðst eigi ríða mundu „og svo vildi eg að þú gerðir.“

Gunnar reið þá heim og gaf Njáli góðar gjafar og þakkaði honum fjárvarðveisluna.

Kolskeggur bróðir hans fýsti hann að ríða til þings „mun þar vaxa sæmd þín við því að margur mun þar að þér víkja.“

„Lítt hefi eg það skap haft,“ segir Gunnar, „að hrósa mér en gott þykir mér að finna góða menn.“

Hallvarður var og þar kominn og bauð að ríða til þings með þeim.