Gunnarshólmi
eftir Jónas Hallgrímsson
- Skein yfir landi sól á sumarvegi
- og silfurbláan Eyjafjallatind
- gullrauðum loga glæsti seint á degi.
- Við austur gnæfir sú in mikla mynd
- hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
- í himinblámans fagurtærri lind.
- Beljandi foss við hamrabúann hjalar
- á hengiflugi undir jökulrótum,
- þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
- En hinum megin föstum standa fótum
- blásvörtum feldi búin Tindafjöll
- og grænu belti gyrð á dalamótum.
- Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
- horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
- sem falla niður fagran Rangárvöll,
- þar sem að una byggðarbýlin smáu,
- dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
- Við norður rísa Heklu tindar háu.
- Svell er á gnípu, eldur geisar undir;
- í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
- skelfing og dauði dvelja langar stundir.
- En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
- hrafntinnu-þökin yfir svörtum sal.
- Þaðan má líta sælan sveitarblóma;
- því Markarfljót í fögrum skógardal
- dunar á eyrum; breiða þekur bakka
- fullgróinn akur, fegurst engja-val
- þaðan af breiðir hátt í hlíðar-slakka
- glitaða blæju, gróna blómum smám.
- Klógulir ernir yfir veiði hlakka;
- því fiskar vaka þar í öllum ám.
- Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,
- og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
- Þá er til ferðar fákum snúið tveimur,
- úr rausnargarði háum undir Hlíð,
- þangað sem heyrist öldu-falla eimur,
- því hafgang þann ei hefta veður blíð,
- sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
- þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
- Um trausta strengi liggur fyrir landi
- borðfögur skeið, með bundin segl við rá;
- skínandi trjóna gín mót sjávar grandi.
- Þar eiga tignir tveir að flytjast á
- bræður af fögrum fósturjarðar ströndum
- og langa stund ei litið aftur fá,
- fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
- útlagar verða, vinar augum fjær;
- svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
- Nú er á brautu borin vigur skær
- frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður
- atgeirnum beitta búinn. Honum nær
- dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður
- og bláu saxi gyrður yfir grund —
- Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
- Svo fara báðir bræður enn um stund;
- skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti;
- Kolskeggur starir út á Eyjasund,
- en Gunnar horfir hlíðar-brekku móti;
- hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
- óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.
- „Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
- fénaður dreifir sér um græna haga,
- við bleikan akur rósin blikar rjóða.
- Hér vil eg una æfi minnar daga
- alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
- bróðir og vinur!” — Svo er Gunnars saga.
- Því Gunnar vildi heldur bíða hel,
- en horfinn vera fósturjarðar ströndum.
- Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél,
- fjötruðu góðan dreng í heljar böndum.
- Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel,
- þar sem ég undrast enn á köldum söndum
- lágan að sigra ógna-bylgju ólma
- algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
- Þar sem að áður akrar huldu völl,
- ólgandi Þverá veltur yfir sanda;
- sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
- árstrauminn harða fögrum dali granda;
- flúinn er dvergur, dáin hamra-tröll,
- dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;
- en lágum hlífir hulinn verndar-kraftur,
- hólmanum, þar sem Gunnar snéri aftur.
- Ljóðmæli, 1913