Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/103

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
103. Lagt saman skipum Ólafs konungs

Ólafur konungur lét blása til samlögu öllum skipum sínum. Var konungsskip í miðju liði en þar á annað borð Ormur hinn skammi en annað borð Traninn. En þá er þeir tóku að tengja stafnana þá bundu þeir saman stafnana á Orminum langa og Orminum skamma. En er konungur sá það kallaði hann hátt, bað þá leggja fram betur hið mikla skipið og láta það eigi aftast vera allra skipa í herinum.

Þá svarar Úlfur hinn rauði: „Ef Orminn skal því lengra fram leggja sem hann er lengri en önnur skip þá mun ávinnt verða um söxin.“

Konungur segir: „Eigi vissi eg að eg ætti stafnbúann bæði rauðan og ragan.“

Úlfur segir: „Ver þú eigi meir baki lyftingina en eg mun verja stafninn.“

Konungur hélt á boga og lagði ör á streng og sneri að Úlfi.

Úlfur mælti: „Skjót annan veg konungur, þannug sem meiri er þörfin. Þér vinn eg það er eg vinn.“