Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/14
Höfundur: Snorri Sturluson
14. Fall Haralds konungs gráfelds að Hálsi
ull-Haraldur kom til Háls í Limafirði. Bauð hann þegar Haraldi gráfeld til orustu. En þótt Haraldur hefði lið minna þá gekk hann þegar á land og bjóst til orustu, fylkti liði sínu. En áður fylkingar gengu saman þá eggjar Haraldur gráfeldur hart lið sitt og bað þá bregða sverðum, hljóp þegar fram í öndverða fylking og hjó til beggja handa.
Svo segir Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:
- Mælti mætra hjalta
- málm-Óðinn sá, blóði,
- þróttar orð, er þorði
- þjóðum völl að rjóða.
- Víðlendr um bað vinda
- verðung Haraldr sverðum,
- frægt þótti það flotnum
- fylkis orð, að morði.
Þar féll Haraldur gráfeldur. Svo segir Glúmur Geirason:
- Varð á víðu borði
- viggjum hollr að liggja
- gætir Glamma sóta
- garðs Eylima fjarðar.
- Sendir féll á sandi
- sævar báls að Hálsi.
- Olli jöfra spjalli
- orðheppinn því morði.
Þar féll flest lið Haralds konungs með honum. Þar féll Arinbjörn hersir.
Þá var liðið frá falli Hákonar Aðalsteinsfóstra fimmtán vetur en frá falli Sigurðar Hlaðajarls þrettán vetur.
Svo segir Ari prestur Þorgilsson að Hákon jarl væri þrettán vetur yfir föðurleifð sinni í Þrándheimi áður Haraldur gráfeldur féll en sex vetur hina síðustu er Haraldur gráfeldur lifði segir Ari að Gunnhildarsynir og Hákon börðust og stukku ýmsir úr landi.