Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/16
Hákon jarl fór með liði sínu norður með landi.
En er Gunnhildur og synir hennar spurðu þessi tíðindi þá safna þau her og varð þeim illt til liðs. Tóku þau enn hið sama ráð sem fyrr, sigla vestur um haf með það lið er þeim vildi fylgja, fara fyrst til Orkneyja og dvöldust þar um hríð. Þar voru áður jarlar synir Þorfinns hausakljúfs, Hlöðvir og Arnfinnur, Ljótur og Skúli. Hákon jarl lagði þá land allt undir sig og sat þann vetur í Þrándheimi.
Þess getur Einar skálaglamm í Velleklu:
- Sjö fylkjum kom silkis,
- snúnaðr var það, brúna
- geymir grundar síma
- grandvar und sig, landi.
Hákon jarl, er hann fór sunnan með landi um sumarið og landsfólk gekk undir hann, þá bauð hann það um ríki sitt allt að menn skyldu halda upp hofum og blótum og var svo gert.
Svo segir í Velleklu:
- Öll lét senn hinn svinni
- sönn Einriða mönnum
- herjum kunn um herjuð
- hofs lönd og vé banda,
- áðr veg jötna vitni
- valfalls, um sjá allan,
- þeim stýra goð, geira
- garðs Hlórriði farði.
- Og herþarfir hverfa,
- Hlakkar móts, til blóta,
- rauðbríkar fremst rækir
- ríkr, ásmegir, slíku.
- Nú grær jörð sem áðan.
- Aftr geirbrúar hafta
- auðrýrir lætr áru
- óhryggja vé byggja.
- Nú liggr allt und jarli,
- ímunborðs, fyr norðan,
- veðrgæðis stendr víða,
- Vík, Hákonar ríki.
Hinn fyrsta vetur er Hákon réð fyrir landi þá gekk síld upp um allt land og áður um haustið hafði korn vaxið hvar sem sáið hafði verið. En um vorið öfluðu menn sér frækorna svo að flestir bændur söru jarðir sínar og varð það brátt árvænt.