Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/22

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
22. Kvonfang Ólafs konungs Tryggvasonar

Ólafur lá við Borgundarhólm og fengu þar veður hvasst og storm sjávar og mega þeir þar eigi við festast og sigla þaðan suður undir Vindland og fá þar höfn góða, fara þar allt með friði og dvöldust þar um hríð.

Búrisláfur hét konungur í Vindlandi. Hans dætur voru þær Geira, Gunnhildur og Ástríður. Geira konungsdóttir hafði þar vald og ríki sem þeir Ólafur komu að landi. Dixin er sá maður nefndur er mest forráð hafði með Geiru drottningu.

En er þau höfðu spurt að þar voru við land komnir ókunnir menn, þeir er tígulega létu yfir sér og þeir fóru þar með friði, þá fór Dixin á fund þeirra með orðsending drottningar, Geiru, þá að hún vill bjóða þeim mönnum til veturvistar er þar voru komnir því að þá var mjög liðið á sumarið en veðrátta hörð og stormar miklir.

En er Dixin kom þar þá varð hann brátt þess var að þar réð fyrir ágætur maður, bæði að ætt og ásýnum. Dixin segir þeim að drottning bauð þeim til sín með vináttuboði. Ólafur þekktist það boð og fór um veturinn til Geiru drottningar og sýndist hvort þeirra öðru afar vel svo að Ólafur hefir uppi orð sín og biður Geiru drottningar. Og verður það að ráði gert að Ólafur fær Geiru drottningar þann vetur. Gerðist hann þar þá forráðamaður þess ríkis með henni.

Hallfreður vandræðaskáld getur þess í drápu þeirri er hann orti um Ólaf konung:

Hilmir lét að hólmi
hræskóð roðin blóði,
hvað um dyldi þess höldar,
hörð og austr í Görðum.