Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/24
Ótta keisari var þá í Saxlandi. Hann sendi boð Haraldi Danakonungi að hann skyldi taka skírn og trú rétta og það landsfólk er hann stýrði en að öðrum kosti sagði keisari að hann mundi fara með her á hendur honum. Þá lét Danakonungur búa landvarnir sínar, lét þá vel upp halda Danavirki og búa herskip sín.
Þá sendi konungur boð í Noreg Hákoni jarli að hann skyldi koma til hans snemma um vorið með allan her þann sem hann fengi. Bauð Hákon jarl her út um vorið af öllu ríki sínu og varð hann allfjölmennur og hélt hann liði því til Danmerkur og fór til fundar við Danakonung. Tók konungur allsæmilega við honum. Margir aðrir höfðingjar voru þá með Danakonungi, þeir er honum veittu lið. Hafði hann þá allmikið lið.