Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/32
Ólafur sigldi úr Syllingum um haustið til Englands, lá þar í höfn einni, fór þá með friði því að England var kristið og hann var og kristinn. En þar fór um landið þingboð nokkuð og allir menn skyldu til þings koma.
En er þing var sett þá kom þar drottning ein er Gyða er nefnd, systir Ólafs kvarans er konungur var á Írlandi í Dyflinni. Hún hafði gift verið á Englandi jarli einum ríkum. Var sá þá andaður en hún hélt eftir ríkinu. En sá maður var í ríki hennar er nefndur er Alvini, kappi mikill og hólmgöngumaður. Hann hafði beðið hennar en hún svaraði svo að hún vildi kjör af hafa hvern hún vildi eiga af þeim mönnum er í hennar ríki voru og var fyrir þá sök þings kvatt að Gyða skyldi sér mann kjósa. Var þar kominn Alvini og búinn með hinum bestum klæðum og margir aðrir voru þar vel búnir.
Ólafur var þar kominn og hafði vosklæði sín og loðkápu ysta. Stóð hann með sína sveit út í frá öðrum mönnum. Gyða gekk og leit sér á hvern mann, þann er henni þótti nokkuð mannsmót að. En er hún kom þar sem Ólafur stóð og sá upp í andlit honum og spyr hver maður hann er.
Hann nefndi sig Óla. „Eg em útlendur maður hér,“ segir hann.
Gyða mælti: „Viltu eiga mig, þá vil eg kjósa þig.“
„Eigi vil eg neita því,“ segir hann.
Hann spurði hvert nafn þessarar konu var, ætt eða öðli.
„Eg em,“ segir hún, „konungsdóttir af Írlandi. Var eg gift hingað til lands jarli þeim er hér réð ríki. Nú síðan er hann andaðist þá hefi eg stýrt ríkinu. Menn hafa beðið mín og engi sá er eg vildi giftast. En eg heiti Gyða.“
Hún var ung kona og fríð. Tala þau síðan þetta mál og semja það sín á milli. Festir Ólafur sér Gyðu.
Alvina líkar nú ákaflega illa. En það var siður á Englandi ef tveir menn kepptust um einn hlut að þar skyldi vera til hólmganga. Býður Alvini Ólafi Tryggvasyni til hólmgöngu um þetta mál. Þeir leggja með sér stefnulag til bardaga og skulu vera tólf hvorir.
En er þeir finnast mælir Ólafur svo við sína menn að þeir geri svo sem hann gerir. Hann hafði mikla öxi. En er Alvini vildi höggva sverði til hans þá laust hann sverðið úr höndum honum og annað högg sjálfan hann svo að Alvini féll. Síðan batt Ólafur hann fast. Fóru svo allir menn Alvina að þeir voru barðir og bundnir og leiddir svo heim til herbergja Ólafs. Síðan bað hann Alvina fara úr landi brott og koma eigi aftur en Ólafur tók allar eigur hans. Ólafur fékk þá Gyðu og dvaldist á Englandi en stundum á Írlandi.
Þá er Ólafur var á Írlandi var hann staddur í herferð nokkurri og fóru þeir með skipum. Og þá er þeir þurftu strandhöggva þá ganga menn á land og reka ofan fjölda búsmala. Þá kom þar eftir einn bóndi og bað Ólaf gefa sér kýr þær er hann átti.
Ólafur bað hann hafa kýr sínar ef hann mætti kenna „og dvel ekki ferð vora.“
Bóndi hafði þar mikinn hjarðhund. Hann vísaði hundinum í nautaflokkana og voru þar rekin mörg hundruð nauta. Hundurinn hljóp um alla nautaflokkana og rak brott jafnmörg naut sem bóndi sagði að hann ætti og voru þau öll á einn veg mörkuð. Þóttust þeir þá vita að hundurinn mundi rétt kennt hafa. Þeim þótti hundur sá furðu vitur.
Þá spurði Ólafur ef bóndi vildi gefa honum hundinn.
„Gjarna,“ segir bóndi.
Ólafur gaf honum þegar í stað gullhring og hét honum vináttu sinni. Sá hundur hét Vígi og var allra hunda bestur. Átti Ólafur hann lengi síðan.