Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/41

Jómsvíkingar höfðu skip stærri og borðmeiri en hvorirtveggju sóttu hið djarfasta. Vagn Ákason lagði svo hart fram að skipi Sveins Hákonarsonar að Sveinn lét á hömlu síga og hélt við flótta. Þá lagði þannug til Eiríkur jarl og fram í fylking móti Vagni. Þá lét Vagn undan síga og lágu skipin sem í fyrstu höfðu legið. Þá réð Eiríkur aftur til liðs síns og höfðu þá hans menn undan hamlað en Búi hafði þá höggvið tengslin og ætlaði að reka flóttann. Þá lagði Eiríkur jarl síbyrt við skip Búa og varð þá höggorusta hin snarpasta og lögðu þá tvö eða þrjú Eiríks skip að Búa skipi einu.

Þá gerði illviðri og él svo mikið að haglkorn eitt vó eyri. Þá hjó Sigvaldi tengslin og sneri undan skipi sínu og vildi flýja. Vagn Ákason kallaði á hann, bað hann eigi flýja. Sigvaldi jarl gaf ekki gaum að hvað hann sagði. Þá skaut Vagn spjóti að honum og laust þann er við stýrið sat. Sigvaldi jarl reri í brott með hálfan fjórða tug skipa en eftir lá hálfur þriðji tugur. Þá lagði Hákon jarl sitt skip á annað borð Búa. Var þá Búa mönnum skammt högga í millum.

Vigfús Víga-Glúmsson tók upp nefsteðja er lá á þiljunum er maður hafði áður hnoðið við hugró á sverði sínu. Vigfús var allsterkur maður. Hann kastaði steðjanum tveim höndum og færði í höfuð Ásláki hólmskalla svo að geirinn stóð í heila niðri. Áslák höfðu ekki áður vopn bitið en hann hafði höggvið til beggja handa. Hann var fóstri Búa og stafnbúi en annar var Hávarður höggvandi. Hann var hinn sterkasti maður og allfrækn.

Í þessari atsókn gengu upp Eiríks menn á skip Búa og aftur að lyftingunni að Búa. Þá hjó Þorsteinn miðlangur til Búa um þvert ennið og í sundur nefbjörgina. Varð það allmikið sár. Búi hjó til Þorsteins utan á síðuna svo að í sundur tók manninn í miðju.

Þá tók Búi upp kistur tvær fullar gulls og kallar hátt: „Fyrir borð allir Búa liðar.“

Steyptist Búi þá utanborðs með kisturnar og margir hans menn hljópu þá fyrir borð en sumir féllu á skipinu því að eigi var gott griða að biðja. Var þá hroðið allt skip Búa með stöfnum og síðan hvert að öðru. Síðan lagði Eiríkur jarl að skipi Vagns og var þar allhörð viðurtaka en að lyktum var hroðið skip þeirra en Vagn handtekinn og þeir þrír tigir og fluttir á land upp bundnir.

Þá gekk til Þorkell leira og segir svo: „Þess strengdir þú heit Vagn að drepa mig en mér þykir hitt nú líkara að eg drepi þig.“

Þeir Vagn sátu á einni lág allir saman. Þorkell hafði mikla öxi. Hann hjó þann er utast sat á láginni. Þeir Vagn voru svo bundnir að einn strengur var snúinn að fótum allra þeirra en lausar voru hendur þeirra.

Þá mælti einn þeirra: „Dálk hefi eg í hendi og mun eg stinga í jörðina ef eg veit nokkuð þá er höfuðið er af mér.“

Höfuð var af þeim höggvið og féll niður dálkur úr hendi honum.

Þá sat maður fríður og hærður vel.

Hann sveipti hárinu fram yfir höfuð sér og rétti fram hálsinn og mælti: „Gerið eigi hárið í blóði.“

Einn maður tók hárið í hönd sér og hélt fast. Þorkell reiddi að öxina. Víkingurinn kippti höfðinu fast. Lét sá eftir er hárinu hélt. Reið öxin ofan á báðar hendur honum og tók af svo að öxin nam í jörðu stað.

Þá kom að Eiríkur jarl og spurði: „Hver er þessi maður hinn fríði?“

„Sigurð kalla mig,“ segir hann, „og em eg kenningarsonur Búa. Eigi eru enn allir Jómsvíkingar dauðir.“

Eiríkur segir: „Þú munt vera að sönnu sannur sonur Búa. Viltu hafa grið?“

„Það skiptir hver býður,“ segir Sigurður.

„Sá býður,“ segir jarl, „er vald hefir til, Eiríkur jarl.“

„Vil eg þá,“ segir hann.

Var hann þá tekinn úr strenginum.

Þá mælti Þorkell leira: „Viltu jarl þessa menn alla láta grið hafa. Þá skal aldregi með lífi fara Vagn Ákason,“ hleypur þá fram með reidda öxina en víkingur, Skarði, reiddi sig til falls í strenginum og féll fyrir fætur Þorkatli. Þorkell féll flatur um hann. Þá greip Vagn öxina. Hann reiddi upp og hjó Þorkel með banahögg.

Þá mælti jarl: „Vagn, viltu hafa grið?“

„Vil eg,“ segir hann, „ef vér höfum allir.“

„Leysi þá úr strenginum,“ segir jarl.

Og svo var gert. Átján voru drepnir en tólf þágu grið.