Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/44
Hrani hafði verið eftir að skipum, þá er Haraldur hafði gengið á land upp, með því liði er eftir var til forráða. En er þeir spurðu það að Haraldur var af lífi tekinn þá fóru þeir í brott sem tíðast og aftur til Noregs og sögðu þessi tíðindi.
Hrani fór á fund Ástu og segir henni atburð um för þeirra og svo hverra erinda Haraldur fór á fund Sigríðar drottningar. Ásta fór þegar til Upplanda til föður síns, er hún hafði spurt þessi tíðindi, og tók hann vel við henni en bæði þau voru mjög reið um þá ráðaætlan er verið hafði í Svíþjóð og það er Haraldur hafði henni ætlað einlæti.
Ásta Guðbrandsdóttir ól sveinbarn þá um sumarið. Sá sveinn var nefndur Ólafur er hann var vatni ausinn. Hrani jós hann vatni. Var sá sveinn þar upp fæddur fyrst með Guðbrandi og Ástu móður sinni.