Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/46

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
46. Ferð Þóris klökku

Hákon jarl fær nokkurn pata af því að maður mun sá vera fyrir vestan haf er Áli nefndist og halda þeir hann þar fyrir konung en jarl grunaði af frásögn nokkurra manna að vera mundi nokkur af konungaætt norrænni. Honum var sagt að Áli kallaðist gerskur að ætt en jarl hafði það spurt að Tryggvi Ólafsson hafði átt son þann er farið hafði austur í Garðaríki og þar upp fæðst með Valdimar konungi og hét sá Ólafur. Hafði jarl og mjög að spurningum leitt um þann mann og grunaði að sá hinn sami mundi nú vera kominn þar í Vesturlöndum.

Maður er nefndur Þórir klakka, vinur mikill Hákonar jarls, og var löngum í víking en stundum í kaupferðum og var víða kunnigt fyrir. Þenna mann sendi Hákon jarl vestur um haf, bað hann fara kaupferð til Dyflinnar, sem þá var mörgum títt, og skynja það hver maður Áli þessi væri. En ef hann spyr það til sanns að þar væri Ólafur Tryggvason eða nokkur annar af konungsætt norrænni þá skyldi Þórir koma við hann svikræðum nokkurum ef hann mætti.