Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/51

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
51. Ólafur Tryggvason tók konungdóm yfir Noregi

Ólafur Tryggvason var til konungs tekinn í Þrándheimi á allsherjarþingi um land allt svo sem haft hafði Haraldur hinn hárfagri. Hljóp þá upp múgur og margmenni og vildi eigi annað heyra en Ólafur Tryggvason skyldi konungur vera. Fór Ólafur þá um land allt og lagði undir sig. Snerust til hlýðni við hann allir menn í Noregi, jafnt þeir höfðingjar á Upplöndum eða í Víkinni er áður höfðu land haldið af Danakonungi, þá gerðust þeir menn Ólafs konungs og héldu land af honum. Fór hann svo yfir land hinn fyrsta vetur og eftir um sumarið.

Eiríkur jarl Hákonarson og Sveinn bróðir hans og aðrir frændur þeirra og vinir flýðu landið og sóttu austur í Svíaveldi til Ólafs konungs hins sænska og fengu þar góðar viðtökur.

Svo segir Þórður Kolbeinsson:

Meinremmir, brá, manna
margs fýsa sköp, varga,
ljóða litlu síðar
læ Hákonar ævi.
En til lands þess er lindar
láðstafr vegið hafði
hraustr, þá er her fór vestan,
hygg eg komu son Tryggva.
Hafði sér við særi,
slíks var von að honum,
auðs en upp um kvæði
Eiríkr í hug meira.
Sótti reiðr að ráðum,
rann engi því manna,
þrályndi gafst Þrændum,
þrænskr jarl konung sænskan.