Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/56
Ólafur konungur stefndi liði sínu til Gulaþings því að bændur hafa honum þau orð send að þeir vilja þar svara máli hans. En er þar koma hvorirtveggju til þings þá vill konungur fyrst eiga tal sitt við landshöfðingja. En er þeir koma á stefnu allir saman þá ber konungur upp sín erindi og býður þeim að taka við skírn eftir boði hans.
Þá segir Ölmóður hinn gamli: „Rætt höfum vér frændur um mál þetta vor í millum og munum vér allir hverfa að einu ráði. Með því konungur að þú ætlar að pynda oss frændur til slíkra hluta, að brjóta lög vor og brjóta oss undir þig með nokkurri nauðung, þá munum vér í móti standa með öllu afli og fái þeir sigur er auðið verður. En ef þú vilt konungur leggja nokkura farsællega hluti til vor frænda þá máttu það gera svo vel að vér munum allir hverfa til þín með fullkominni þjónustu.“
Konungur segir: „Hvers viljið þér mig beiða til þess að sætt vor verði sem best?“
Þá segir Ölmóður: „Það er hið fyrsta ef þú vilt gifta Ástríði systur þína Erlingi Skjálgssyni frænda vorum er vér köllum nú mannvænstan allra ungra manna í Noregi.“
Ólafur konungur segir að honum þykir líklegt að það gjaforð muni vera gott, segir að Erlingur er ættaður vel og maður hinn líklegsti sýnum en þó segir hann að Ástríður á svör þessa máls.
Síðan ræddi konungur þetta við systur sína.
„Lítt nýt eg nú þess,“ segir hún, „að eg em konungsdóttir og konungssystir ef mig skal gifta ótignum manni. Mun eg enn heldur bíða nokkura vetur annars gjaforðs.“
Og skildu þau ræðuna að sinni.