Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/75

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
75. Frá Háreki í Þjóttu

Það var um vorið einn góðan veðurdag að Hárekur var heima og fátt manna á bænum. Þótti honum dauflegt. Sigurður mælti við hann ef hann vill að þeir rói nokkuð og skemmti sér. Það líkar Háreki vel. Ganga síðan til strandar og draga fram sexæring einn. Tók Sigurður úr naustinu segl og reiða er fylgdi skipinu svo sem þeir voru oft vanir að fara, að hafa segl er þeir fóru að skemmta sér. Hárekur gekk á skip og lagði stýri í lag. Þeir Sigurður bræður fóru með alvæpni svo sem þeir voru vanir jafnan heima að ganga með búanda. Þeir voru báðir manna sterkastir. En áður þeir gengju út á skipið köstuðu þeir út smjörlaupum nokkurum og brauðkassi og báru milli sín mikla mungátsbyttu á skipið. Síðan reru þeir frá landi. En er þeir voru skammt komnir frá eyjunni þá færa þeir bræður segl upp en Hárekur stýrði. Bar þá brátt frá eyjunni. Þá ganga þeir bræður aftur þar til er Hárekur sat.

Sigurður mælti til Háreks bónda: „Nú skaltu kjósa hér um kosti nokkura. Sá er hinn fyrsti að láta okkur bræður fyrir ferð vorri ráða og stefnu. Hinn er annar að láta okkur binda þig. Sá er hinn þriðji að við munum drepa þig.“

Hárekur sá þá hvernug komið var hans máli. Hann var andvígur ekki betur en öðrum þeirra bræðra ef þeir væru jafnbúnir. Kaus hann því þann af er honum þótti nokkuru vildastur að láta þá ráða fyrir ferðinni. Batt hann það svardögum við þá og seldi þeim trú sína til þess. Síðan gekk Sigurður til stjórnar og stefndi suður með landi. Gæta þeir bræður þess að þeir skyldu hvergi menn finna en byri gaf sem best. Létta þeir ferðinni eigi fyrr en þeir koma suður í Þrándheim og inn til Niðaróss og finna þar Ólaf konung.

Síðan lét Ólafur konungur kalla Hárek á tal við sig og bauð honum að skírast. Hárekur mælti í móti. Þetta tala þeir konungur og Hárekur marga daga, stundum fyrir mörgum mönnum en stundum í einmæli og kemur hér ekki ásamt.

En að lyktum segir konungur Háreki: „Nú skaltu fara heim og vil eg ekki granda þér. Fyrst heldur það til að frændsemi er mikil milli okkar og það annað að þú munt kalla að eg hafi með svikum fengið þig. En vit það til sanns að eg ætla mér í sumar að koma norður þannug og vitja yðar Háleygjanna. Skuluð þér þá vita hvort eg kann refsa þeim er neita kristninni.“

Hárekur lét vel yfir því að hann kæmi sem fyrst þaðan í brott. Ólafur konungur fékk Háreki skútu góða, reru á borð tíu menn eða tólf, lét það skip búa sem best að öllum föngum. Konungur fékk Háreki þrjá tigu manna, vaskra drengja og vel búinna.