Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/77
En um vorið eftir lét Ólafur konungur búa skip sín og lið. Þá hafði hann sjálfur Tranann. Hafði konungur þá mikið lið og frítt. En er hann var búinn hélt hann liðinu út eftir firði og síðan norður fyrir Byrðu og svo norður á Hálogaland. En hvar sem hann kom við land þá átti hann þing. Bauð hann þar öllu fólki að taka skírn og rétta trú. Bar þá engi maður traust til að mæla í móti og kristnaði hann þá land allt þar sem hann fór.
Ólafur konungur tók veislu í Þjóttu að Háreks. Þá var hann skírður og allt lið hans. Gaf Hárekur konungi góðar gjafar að skilnaði og gerðist hans maður og tók veislur af konungi og lends manns rétt.