Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/90
Eiríkur jarl sigldi um haustið aftur til Svíþjóðar og var þar vetur annan. En að vori bjó jarl her sinn og sigldi síðan í Austurveg. En þá er hann kom í ríki Valdimars konungs tók hann að herja og drepa mannfólkið og brenna allt þar sem hann fór og eyddi landið. Hann kom til Aldeigjuborgar og settist þar um þar til er hann vann staðinn, drap þar mart fólk en braut og brenndi borgina alla og síðan fór hann víða herskildi um Garðaríki.
Svo segir í Bandadrápu:
- Oddhríðar fór eyða,
- óx hríð að það síðan,
- logfágandi lægis
- land Valdimars brandi.
- Aldeigju braust, ægir,
- oss numnast skil, gumna.
- Sú varð hildr með höldum
- hörð. Komst austr í Garða.
Eiríkur jarl var í þessum hernaði öllum samt fimm sumur. En er hann kom úr Garðaríki fór hann herskildi um alla Aðalsýslu og Eysýslu og þar tók hann fjórar víkingaskeiður af Dönum og drap allt af.
Svo segir í Bandadrápu:
- Frá eg, hvar fleina sævar
- fúrherðir styr gerði
- endr í eyja sundi.
- Eiríkr und sig geira.
- Hrauð fúrgjafall fjórar
- fólkmeiðr Dana skeiðar,
- vér frágum það, vága,
- veðrmildr og semr hildi.
- Áttuð hjaldr, þar er höldar,
- hlunnviggs, í bý runnu,
- gæti-Njörðr, við Gauta,
- gunnblíðr og ræðr síðan.
- Herskildi fór hildar,
- hann þverrði frið mönnum,
- ás um allar Sýslur,
- jarl goðvörðu hjarli.
Eiríkur jarl fór til Danmarkar þá er hann hafði einn vetur verið í Svíaveldi. Hann fór á fund Sveins tjúguskeggs Danakonungs og bað til handa sér Gyðu dóttur hans og var það að ráði gert. Fékk þá Eiríkur jarl Gyðu. Vetri síðar áttu þau son er Hákon hét. Eiríkur jarl var á vetrum í Danmörk en stundum í Svíaveldi en í hernaði á sumrum.