Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/92
Búrisláfur Vindakonungur kærði mál það fyrir Sigvalda jarli mági sínum að sættargerð sú var rofin er Sigvaldi jarl hafði gert milli Sveins konungs og Búrisláfs konungs. Búrisláfur konungur skyldi fá Þyri Haraldsdóttur, systur Sveins konungs, en það ráð hafði ekki fram gengið því að Þyri setti þar þvert nei fyrir að hún mundi giftast vilja heiðnum manni og gömlum. Nú segir Búrisláfur konungur jarli að hann vilji heimta þann máldaga og bað jarl fara til Danmerkur og hafa Þyri drottningu til sín.
Sigvaldi jarl lagðist þá ferð eigi undir höfuð og fer á fund Sveins Danakonungs og ber þetta mál fyrir hann og kemur jarl svo fortölum sínum að Sveinn konungur fær í hendur honum Þyri systur sína og fylgdu henni konur nokkurar og fósturfaðir hennar er nefndur er Össur Agason, ríkur maður, og nokkurir menn aðrir. Kom það í einkamál með konungi og jarli að eignir þær í Vindlandi er átt hafði Gunnhildur drottning skyldi þá hafa Þyri til eiginorðs og þar með aðrar stórar eignir í tilgjöf sína.
Þyri grét sárlega og fór mjög nauðig. En er þau jarl komu í Vindland þá gerði Búrisláfur konungur brullaup sitt og fékk Þyri drottningar. En er hún var með heiðnum mönnum þá vildi hún hvorki þiggja mat né drykk af þeim og fór svo fram sjö nætur. En þá var það á einni nótt að Þyri drottning og Össur hljópust í brott í náttmyrkri og til skógar. Er það skjótast frá þeirra ferð að segja að þau koma fram í Danmörk og þorir Þyri þar fyrir engan mun að vera fyrir þá sök að hún veit ef Sveinn konungur spyr, bróðir hennar, til hennar þar, að hann mun skjótt senda hana aftur til Vindlands. Fara þau allt huldu höfði þar til er þau koma í Noreg. Létti Þyri ferðinni eigi fyrr en þau koma á fund Ólafs konungs.
Tók hann við þeim vel og voru þau þar í góðum fagnaði. Segir Þyri konungi allt um sín vandræði og biður hann hjálpráða, biður sér friðar í hans ríki. Þyri var kona orðsnjöll og virtust konungi vel ræður hennar. Sá hann að hún var fríð kona og kemur í hug að þetta muni vera gott kvonfang og víkur þannug ræðunni, spyr ef hún vill giftast honum.
En svo sem þá var hennar ráði komið þótti henni vandi mikill úr að ráða en í annan stað sá hún hversu farsællegt gjaforð þetta var, að giftast svo ágætum konungi, og bað hann ráða fyrir sér og sínu ráði. Og svo sem um þetta var talað þá fékk Ólafur konungur Þyri drottningar. Þetta brullaup var gert um haustið þá er konungur hafði komið norðan af Hálogalandi. Var Ólafur konungur og Þyri drottning í Niðarósi um veturinn.
En eftir um vorið þá kærði Þyri drottning oft fyrir Ólafi konungi og grét sárlega það er eignir hennar voru svo miklar í Vindlandi en hún hafði eigi fjárhlut þar í landi svo sem drottningu sæmdi. Stundum bað hún konung fögrum orðum að hann skyldi fá henni eign sína, segir að Búrisláfur konungur var svo mikill vin Ólafs konungs að þegar er þeir fyndust mundi konungur fá Ólafi konungi allt það er hann beiddist. En er þessar ræðu urðu varir vinir Ólafs konungs þá löttu allir konung þessarar farar.
Svo er sagt að það var einn dag snemma um vorið að konungur gekk eftir stræti en við torg gekk maður í móti honum með hvannir margar og undarlega stórar þann tíma vors. Konungur tók einn hvannnjóla mikinn í hönd sér og gekk heim til herbergis Þyri drottningar. Þyri sat inni í stofunni og grét er konungur kom inn.
Konungur mælti: „Sjá hér hvannnjóla mikinn er eg gef þér.“
Hún laust við hendinni og mælti: „Stærrum gaf Haraldur Gormsson en miður æðraðist hann að fara af landi og sækja eign sína, en þú gerir nú, og reyndist það þá er hann fór hingað í Noreg og eyddi mestan hlut lands þessa en eignaðist allt að skyldum og sköttum, en þú þorir eigi að fara í gegnum Danaveldi fyrir Sveini konungi bróður mínum.“
Ólafur konungur hljóp upp við er hún mælti þetta og mælti hátt og svarði við: „Aldrei skal eg hræddur fara fyrir Sveini konungi bróður þínum og ef okkrir fundir verða þá skal hann fyrirláta.“