Heimskringla/Ólafs saga helga/104
Nú fer tvennum sögum fram og skal þar nú til taka sem frá var horfið er frá því var sagt er Ólafur Haraldsson hafði frið gert við Ólaf Svíakonung og það að Ólafur konungur fór það sumar norður til Þrándheims. Hann hafði þá verið konungur fimm vetur.
Það haust bjó hann til vetursetu í Niðarósi og sat þar um veturinn. Þann vetur var með Ólafi konungi Þorkell fóstri Ámundason sem fyrr var ritað. Ólafur konungur leiddi þá mjög að spurningum um kristnihald hvert þá væri í landinu og spurðist honum svo til sem ekki væri kristnihaldið þegar er norður sótti á Hálogaland en þó skorti mikið á að vel væri um Naumudal og inn um Þrándheim.
Maður er nefndur Hárekur sonur Eyvindar skáldaspillis. Hann bjó í ey þeirri er Þjótta heitir. Það er á Hálogalandi. Eyvindur hafði maður verið ekki stórauðigur, ættstór og skörungur mikill. Í Þjóttu bjuggu þá smáir bændur og eigi allfáir. Hárekur keypti þar einn bæ fyrst og eigi allmikinn og fór þar búðum til. En á fám misserum hafði hann rutt í brott öllum bóndum þeim er þar bjuggu áður svo að hann átti þá einn alla eyna og gerði þar þá höfuðbæ mikinn. Hárekur varð brátt vellauðigur. Hann var spekingur mikill að viti og framkvæmdarmaður. Hann hafði lengi haft af höfðingjum metnað mikinn. Hann var í frændsemistölu við Noregskonunga. Af þeim sökum hafði Hárekur haft mikil metorð af landshöfðingjum. Gunnhildur föðurmóðir Háreks var dóttir Hálfdanar jarls og Ingibjargar dóttur Haralds hins hárfagra.
Hárekur var þá heldur á efra aldri þá er þetta er tíðinda. Hárekur var mestur virðingamaður á Hálogalandi. Hann hafði þá langa hríð Finnkaup og konungssýslu á Mörkinni. Hafði hann stundum einn haft en stundum höfðu aðrir suma með honum. Ekki hafði hann komið á fund Ólafs konungs en þó höfðu farið orð og sendimenn millum þeirra og var það allt vingjarnlegt og þann vetur er Ólafur konungur sat í Niðarósi fóru enn menn milli þeirra Háreks úr Þjóttu. Þá lýsti konungur yfir því að um sumarið eftir ætlaði hann sér að fara norður á Hálogaland og allt norður til landsenda en þeir Háleygirnir hugðu allmisjafnt til þeirrar ferðar.