Heimskringla/Ólafs saga helga/109
Ólafur konungur hafði veislu mikla um páska og hafði marga bæjarmenn í boði sínu og svo bændur. En eftir páska lét konungur setja fram skip sín og bera til reiða og árar, lét þilja skipin og tjalda og lét fljóta skipin svo búin við bryggjur. Ólafur konungur sendi menn eftir páska í Veradal.
Maður er nefndur Þóraldi, ármaður konungs. Hann varðveitti konungsbú að Haugi. En konungur sendi honum orð að hann skyldi koma til hans sem skyndilegast. Þóraldi lagðist þá för eigi undir höfuð og fór þegar út til bæjar með sendimönnum.
Konungur kallar hann á einmæli og spurði eftir hvað sannindi væri á því „er mér er sagt frá siðum Innþrænda, hvort svo er að þeir snúast til blóta. Vil eg,“ segir konungur, „að þú segir mér sem er og þú veist sannast. Ert þú til þess skyldur því að þú ert minn maður.“
Þóraldi svarar: „Herra það vil eg yður fyrst segja að eg flutti hingað til bæjar sonu mína tvo og konu og lausafé allt það er eg mátti með komast. En ef þú vilt hafa þessa sögu af mér þá skal það vera á yðru valdi. En ef eg segi svo sem er þá muntu sjá fyrir mínu ráði.“
Konungur segir: „Seg þú satt frá því er eg spyr þig en eg skal sjá fyrir ráði þínu svo að þig skal ekki saka.“
„Það er yður satt að segja konungur ef eg skal segja sem er að inn um Þrándheim er nálega allt fólk alheiðið í átrúnaði þótt sumir menn séu þar skírðir. En það er siður þeirra að hafa blót á haust og fagna þá vetri, annað að miðjum vetri en hið þriðja að sumri, þá fagna þeir sumri. Eru að þessu ráði Eynir og Sparbyggjar, Verdælir, Skeynir. Tólf eru þeir er fyrir beitast um blótveislurnar og á nú Ölvir í vor að halda upp veislunni. Er hann nú í starfi miklu á Mærini og þangað eru til flutt öll föng þau er til þarf að hafa veislunnar.“
En er konungur varð hins sanna vís þá lét hann blása saman liði sínu og lét segja mönnum að til skipa skyldi ganga. Konungur nefndi menn til skipstjórnar og svo sveitarhöfðingja eða hvert hvergi sveit skyldi til skips. Var þá búist skjótt. Hafði konungur fimm skip og þrjú hundruð manna og hélt inn eftir firði. Var góður byr og töldu snekkjurnar ekki lengi fyrir vindi en þessa varði engan mann, að konungur mundi svo skjótt koma inn þannug.
Konungur kom um nóttina inn á Mærina. Var þar þegar sleginn mannhringur um hús. Þar var Ölvir höndum tekinn og lét konungur drepa hann og mjög marga menn aðra. En konungur tók upp veislu þá alla og lét flytja til skipa sinna og svo fé það allt, bæði húsbúnað og klæðnað og gripi, er menn höfðu þangað flutt og skipta sem herfangi með mönnum sínum. Konungur lét og veita heimferð að bóndum þeim er honum þóttu mestan hluta hafa að átt þeim ráðum. Voru sumir höndum teknir og járnsettir en sumir komust á hlaupi undan en fyrir mörgum var féið upp tekið.
Konungur stefndi þá þing við bændur. En fyrir því að hann hafði marga ríkismenn höndum tekið og hafði þá í sínu valdi þá réðu það af frændur þeirra og vinir að játa konungi hlýðni og varð engi uppreist í móti konungi ger í það sinn. Sneri hann þar öllu fólki á rétta trú og setti þar kennimenn og lét gera kirkjur og vígja. Konungur lagði Ölvi ógildan en kastaði sinni eigu á fé það allt er hann hafði átt. En um þá menn aðra er honum þótti mest sakbitnir lét hann suma drepa, suma hamla en suma rak hann úr landi en tók fé af sumum. Konungur fór þá aftur út til Niðaróss.