Heimskringla/Ólafs saga helga/112


Dala-Guðbrandur hefir maður heitið er svo var sem konungur væri yfir Dölunum og var hersir að nafni. Honum jafnaði Sighvatur skáld að ríki og víðlendi við Erling Skjálgsson.

Sighvatur kvað um Erling:

Einn vissi eg þér annan
Jálks bríktöpuð líkan.
Vítt réð gumna gætir,
Guðbrandr hét sá, löndum.
Ykkr kveð eg jafna þykkja,
ormláðs hati, báða.
Lýgr hinn að sér, lægir
linnsetrs, er telst betri.

Guðbrandur átti son einn þann er hér sé getið. Þá er Guðbrandur frá þessi tíðindi að Ólafur konungur var kominn á Lóar og nauðgaði mönnum að taka við kristni þá skar hann upp herör og stefndi öllum Dælum til bæjar þess er Hundþorp heitir til fundar við sig. Og þar komu þeir allir og var örgrynni liðs fyrir því að þar liggur vatn það nær sem Lögur heitir og mátti þar jafnvel fara til á skipum sem á landi.

Og átti Guðbrandur þar þing við þá og segir að sá maður var kominn á Lóar „er Ólafur heitir og vill bjóða oss trú aðra en vér höfum áður og brjóta goð vor öll í sundur og segir svo að hann eigi miklu meira goð og máttkara og er það furða er jörð brestur eigi í sundur undir honum er hann þorir slíkt að mæla eða goð vor láta hann lengur ganga. Og vænti eg ef vér berum út Þór úr hofi voru er hann stendur á þeima bæ og oss hefir jafnan dugað og sér hann Ólaf og hans menn þá mun guð hans bráðna og sjálfur hann og menn hans og að engu verða.“

Þá æptu þeir upp allir senn og mæltu að Ólafur skyldi aldregi þaðan komast ef hann kæmi á fund þeirra „og eigi mun hann þora lengra að fara suður eftir Dölunum,“ segja þeir.

Síðan ætluðu þeir til sjö hundruð manna að fara á njósn norður til Breiðu en fyrir því liði var höfðingi sonur Guðbrands, átján vetra gamall, og margir aðrir ágætir menn með honum og komu til bæjar þess er Hof heitir og voru þar þrjár nætur og kom þar mart lið til þeirra, það er flúið hafði af Lesjum og Lóm og Voga, þeir er eigi vildu undir kristni ganga. En Ólafur konungur og Sigurður biskup settu eftir kennimenn á Lóm og á Voga.

Síðan fóru þeir yfir um Vogaröst og komu niður á Sil og voru þar um nóttina og frágu þau tíðindi að lið var mikið fyrir þeim. Það frágu og búendur er á Breiðunni voru og bjuggust til bardaga móti konungi.

En þá er konungur stóð upp þá herklæddist hann og fór suður eftir Silvöllum og létti eigi fyrr en á Breiðunni og sá þar mikinn her fyrir sér búinn til bardaga. Síðan fylkti konungur liði sínu og reið sjálfur fyrir og orti orða á bændur og bauð þeim að taka við kristni.

Þeir svöruðu: „Þú munt öðru við koma í dag en gabba oss,“ og æptu heróp og börðu vopnum á skjöldu sína.

Konungsmenn hljópu þá fram, skutu spjótum en búendur sneru þá þegar á flótta svo að fátt eitt stóð eftir. Var þá sonur Guðbrands höndum tekinn og gaf Ólafur konungur honum grið og hafði með sér. Þar var konungur fjórar nætur.

Þá mælti konungur við son Guðbrands: „Far þú aftur til föður þíns og seg honum að brátt mun eg þar koma.“

Síðan fór hann heim aftur og segir föður sínum hörð tíðindi að þeir höfðu hitt konung og hófu bardaga við hann. „En lið vort flýði allt í fyrstunni þegar en eg varð handtekinn,“ segir hann. „Gaf konungur mér grið og bað mig fara að segja þér að hann kemur hér brátt. Nú höfum vér eigi meir hér en tvö hundruð manna af því liði öllu er vér höfðum þá til móts við hann. Nú ræð eg þér það faðir að berjast ekki við þenna mann.“

„Heyra má það,“ segir Guðbrandur, „að úr þér er barður kjarkur allur. Og fórstu þá heilli heiman og mun þér sjá för lengi uppi vera og trúir þú nú þegar á órar þær er sjá maður fer með og þér hefir illa hneisu gerva og þínu liði.“

Og um nóttina eftir dreymdi Guðbrand að maður kom til hans ljós og stóð af honum mikil ógn og mælti við hann: „Sonur þinn fór enga sigurför á mót Ólafi konungi en miklu muntu hafa minni ef þú ætlar að halda bardaga við konung og muntu falla sjálfur og allt lið þitt og munu vargar draga þig og alla yður og hrafnar slíta.“

Hann varð hræddur mjög við ógn þessa og segir Þórði ístrumaga er höfðingi var fyrir Dælum.

Hann segir: „Slíkt hið sama bar fyrir mig,“ segir hann.

Og um morguninn létu þeir blása til þings og sögðu að þeim þótti það ráð að eiga þing við þann mann er norðan fór með ný boðorð og vita með hverjum sannindum hann fer.

Síðan mælti Guðbrandur við son sinn: „Þú skalt nú fara á fund konungs þess er þér gaf grið og tólf menn með þér.“

Og svo var gert. Og þeir komu á fund konungs og segja honum sitt erindi að bændur vildu hafa þing við hann og setja grið í milli konungs og bónda. Konungur lét sér það vel þokkast og bundu það við hann einkamálum sín í milli meðan sú stefna væri. Og fóru þeir aftur við svo búið og segja Guðbrandi og Þórði að grið voru sett.

Konungur fór þá til bæjar þess er Liðsstaðir heita og var þar fimm nætur. Þá fór konungur á fund búenda og átti þing við þá. En væta var á mikil um daginn.

Síðan er þingið var sett þá stóð konungur upp og segir að þeir á Lesjum og á Lóm og á Voga hafa tekið við kristni og brotið niður blóthús sín „og trúa nú á sannan guð er skóp himin og jörð og alla hluti veit.“

Síðan sest konungur niður.

En Guðbrandur svarar: „Eigi vitum vér um hvern þú ræðir. Kallar þú þann guð er þú sérð eigi og engi annarra. En vér eigum þann guð er hvern dag má sjá og er því eigi úti í dag að veður er vott og mun yður hann ógurlegur sýnast og mikill fyrir sér. Vænti eg að yður skjóti skelk í bringu ef hann kemur á þingið. En með því að þú segir að guð yðar má svo mikið þá láttu hann nú svo gera að veður sé skýjað í morgun en regn ekki og finnumst hér þá.“

Síðan fór konungur heim til herbergis og fór með honum sonur Guðbrands í gísling en konungur fékk þeim annan mann í móti.

Um kveldið þá spyr konungur son Guðbrands hvernug goð þeirra væri gert.

Hann segir að hann var merktur eftir Þór „og hefir hann hamar í hendi og mikill vexti og holur innan og ger undir honum sem hjallur sé og stendur hann þar á ofan er hann er úti. Eigi skortir hann gull og silfur á sér. Fjórir hleifar brauðs eru honum færðir hvern dag og þar við slátur.“

Síðan fóru þeir í rekkjur en konungur vakti þá nótt og var á bænum sínum. En er dagur var fór konungur til messu og síðan til matar og þá til þings. En veðrinu var svo farið sem Guðbrandur hafði fyrir mælt. Þá stóð biskup upp í kantarakápu og hafði mítur á höfði og bagal í hendi og talaði trú fyrir bóndum og segir margar jartegnir er guð hafði gert og lauk vel ræðu sinni.

Þá svarar Þórður ístrumagi: „Mart mælir hyrningur sjá er staf hefir í hendi og uppi á sem veðrarhorn sé bjúgt. En með því að þið félagar kallið guð yðarn svo margar jartegnir gera þá mæl þú við hann að á morgun fyrir sól láti hann vera heið og sólskin og finnumst þá og gerum þá annaðhvort að verum sáttir um þetta mál eða höldum bardaga.“

Og skildust þá að sinni.