Heimskringla/Ólafs saga helga/114


Ólafur konungur fór síðan út á Heiðmörk og kristnaði þar því að þá er hann hafði tekið konunga treystist hann eigi að fara víða um land með lítið lið eftir slíkt stórvirki. Var þá óvíða kristnað um Heiðmörk. En í þeirri ferð létti konungur eigi fyrr en Heiðmörk var alkristnuð og þar vígðar kirkjur og kennimenn til. Þá fór hann út á Þótn og Haðaland og rétti þar siðu manna og létti svo að þar var alkristið.

Þaðan fór hann á Hringaríki og gengu menn allt undir kristni. Það frágu Raumar að Ólafur konungur bjóst upp þannug og söfnuðu liði miklu saman og mæltu svo sín í milli að það er þeim eimuni sú yfirför er Ólafur hafði þar farið fyrra sinni og sögðu að hann skyldi aldrei svo síðan fara. En er Ólafur konungur fór upp á Raumaríki með liði sínu þá kom móti honum bóndasafnaður við á þá er Nitja heitir. Höfðu bændur her manns. En er þeir fundust ortu bændur þegar á til bardaga en brátt brann við hlutur þeirra og hrukku þeir þegar undan og voru barðir til batnaðar því að þeir tóku við kristni. Fór konungur yfir það fylki og skildist eigi fyrr við en þar höfðu allir menn við kristni tekið.

Þaðan fór hann austur í Sóleyjar og kristnaði þá byggð. Þar kom til hans Óttar svarti og beiddist að ganga til handa Ólafi konungi. Þann vetur hafði áður andast Ólafur Svíakonungur. Þá var Önundur Ólafsson konungur í Svíþjóð.

Ólafur konungur sneri þá aftur á Raumaríki. Var þá mjög liðinn veturinn. Þá stefndi Ólafur konungur þing fjölmennt í þeim stað sem síðan hefir verið Heiðsævisþing. Setti hann þá það í lögum að til þess þings skyldu sækja Upplendingar og Heiðsævislög skyldu ganga um öll fylki á Upplöndum og svo víða annars staðar sem síðan hafa þau gengið.

En er vorar sótti hann út til sævar, lét þá búa skip sín og fór um vorið út til Túnsbergs og sat þar um vorið þá er þar var fjölmennast og þungi var fluttur til bæjar af öðrum löndum. Var þar þá árferð góð allt um Víkina og til góðrar hlítar allt norður til Staðs en hallæri mikið allt norður þaðan.