Heimskringla/Ólafs saga helga/127


Það sama sumar komu utan af Færeyjum til Noregs að orðsending Ólafs konungs Gilli lögsögumaður, Leifur Össurarson, Þórálfur úr Dímon og margir aðrir bóndasynir. En Þrándur í Götu bjóst til ferðar. En er hann var búinn mjög þá tók hann fælisótt þá er hann var hvergi fær og dvaldist hann eftir.

En er þeir Færeyingar komu á fund Ólafs konungs þá kallaði hann þá á tal og átti stefnu við þá. Lauk hann þá upp við þá erindi þau er undir bjuggu ferðinni og segir þeim að hann vildi hafa skatt af Færeyjum og það með að Færeyingar skyldu hafa þau lög sem Ólafur konungur setti þeim. En á þessi stefnu fannst það á orðum konungs að hann mundi taka festu til þessa máls af þeim færeyskum mönnum er þá voru þar komnir ef þeir vildu það sáttmál svardögum binda, bauð þeim mönnum er honum þóttu þar ágæstir að þeir skyldu gerast honum handgengnir og þiggja af honum metorð og vináttu.

En þeim hinum færeyskum virtist svo orð konungs sem grunur mundi á vera hvernug þeirra mál mundi snúast ef þeir vildu eigi undir það allt ganga sem konungur beiddi þá. En þó að til þessa máls yrðu fleiri stefnulög áður en það lyktist þá varð það framgengt allt er konungur beiddist. Gengu þeir til handa konungi og gerðust hirðmenn hans, Leifur og Gilli og Þórálfur, en allir þeir förunautar veittu svardaga Ólafi konungi til þess að halda í Færeyjum þau lög og þann landsrétt sem hann setti þeim og skattgildi það er hann kvað á.

Síðan bjuggust þeir hinir færeysku til heimferðar. En að skilnaði veitti konungur þeim vingjafir. En þeir er honum höfðu handgengnir gerst, fara þeir ferðar sinnar þá er þeir voru búnir.

En konungur lét búa skip og fékk manna til og sendi þá menn til Færeyja að taka þar við skatti þeim er Færeyingar skyldu gjalda honum. Þeir urðu ekki snemmbúnir og er frá ferð þeirra það að segja að þeir koma eigi aftur og engi skattur á því sumri er næst var eftir því að þeir höfðu ekki komið til Færeyja. Hafði þar engi maður skatt heimtan.