Heimskringla/Ólafs saga helga/144

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
144. Leiðangur Ólafs konungs


En nú er frá því að segja er fyrr var upp hafið er Ólafur konungur fór með liði sínu og hafði leiðangur úti fyrir landi. Fylgdu honum þá allir lendir menn norðan úr landi nema Einar þambarskelfir. Hann hafði um kyrrt setið heima að búum sínum síðan er hann kom í land og þjónaði ekki konungi. Átti Einar stórmiklar eignir og hélt sig þó vegsamlega að hann hefði engar konungsveislur.

Ólafur konungur hélt liði því suður um Stað. Dróst þar enn til hans lið mikið úr héruðum. Þá hafði Ólafur konungur skip það er hann hafði gera látið áður um veturinn er Vísundur var kallaður, allra skipa mest. Var á framstafni vísundarhöfuð gulli búið.

Þess getur Sighvatur skáld:

Lyngs bar fiskr til fengjar
flugstyggs sonar Tryggva
gjölnar gulli mölnu,
goð vildi svo, roðnar.
Annan lét á unnir
Ólafr, búinn hála,
lögr þó drjúgt, hinn digri,
dýrs horn, Vísund sporna.

Fór konungur þá suður á Hörðaland. Hann spurði þau tíðindi að Erlingur Skjálgsson var úr landi farinn og hafði haft lið mikið, skip fjögur eða fimm. Hann hafði sjálfur skeið eina mikla en synir hans þrjár tvítugsessur og höfðu siglt vestur til Englands á fund Knúts hins ríka.

Fór þá Ólafur konungur austur með landi og hafði allmikið lið. Hann leiddi að spurningum ef menn vissu nokkuð til ferðar Knúts hins ríka. En það kunnu allir að segja að hann var á Englandi en það var og sagt með að hann hafði leiðangur úti og ætlaði til Noregs. En fyrir þá sök er Ólafur konungur hafði lið mikið og hann fékk eigi hið sanna spurt hvert hann skyldi stefna til fundar við Knút, en mönnum þótti sér illa gegna dvöl í einum stað með her svo mikinn, þá réð hann það af að sigla með herinn suður til Danmerkur og hafði það lið allt með sér er honum þótti víglegast og best var búið en gaf hinum heimleyfi svo sem kveðið er:

Ólafr knýr und árum
orðsnjallr Vísund norðan.
Brýtr annar gramr úti
unnheim dreka sunnan.

Nú fór það lið heim er honum þótti minni fylgd í. Hafði Ólafur konungur þar lið mikið og frítt. Voru þar flestir lendir menn úr Noregi nema þeir er áður var sagt að úr landi væru farnir eða eftir höfðu sest heima.