Heimskringla/Ólafs saga helga/147
Knútur hinn ríki hafði búið her sinn úr landi. Hafði hann óf liðs og skip furðulega stór. Hann sjálfur hafði dreka þann er svo var mikill að sextugur var að rúmatali. Voru þar á höfuð gullbúin. Hákon jarl hafði annan dreka. Var sá fertugur að rúmatali. Voru þar og gyllt höfuð á en seglin bæði voru stöfuð öll með blá og rauðu og grænu. Öll voru skipin steind fyrir ofan sæ. Allur búnaður skipanna var hinn glæsilegsti. Mörg önnur skip höfðu þeir stór og búin vel.
Þess getur Sighvatur skáld í Knútsdrápu:
- Knútr var und himnum.
- Hann austan fer,
- fríðr fylkis niðr,
- fráneygr, Dana.
- Skreið vestan viðr,
- varglæstr, sá er bar
- út andskota
- Aðalráðs þaðan.
- Og báru í byr
- blá segl við rá,
- dýr var döglings för,
- drekar landreka.
- En, þeir er komu,
- kilir, vestan til,
- um leið liðu,
- Limafjarðar, brim.
Svo er sagt að Knútur konungur hélt her þeim hinum mikla vestan af Englandi og kom heilu öllu liði sínu til Danmarkar og lagði til Limafjarðar. Var þar fyrir safnaður mikill landsmanna.