Heimskringla/Ólafs saga helga/149
En er Ólafur konungur og Önundur konungur spurðu að Knútur konungur var vestan kominn og það að hann hafði þá óflýjanda her þá sigla þeir austur fyrir Skáni, taka þá að herja og brenna héruð, sækja svo austur fyrir landið til móts við ríki Svíakonungs.
En þegar er landsfólkið spurði að Knútur konungur var vestan kominn þá varð ekki af handgöngu við konunga.
Þessa getur Sighvatur skáld:
- Gátut drottnar
- Danmörk spanið
- und sik sökum
- snarir herfarar.
- Þá lét skarpla
- Skáney Dana
- hlöðr herjaða.
- Höfuðfremstr jöfur.
Þá sóttu konungar austur fyrir landið og lögðu að þar er heitir Áin helga og dvöldust þar um hríð. Þá spyrja þeir að Knútur konungur fór með her sinn austur eftir þeim. Þá bera þeir ráð saman og tóku það til að Ólafur konungur með liði sínu sumu gekk á land upp og allt á markir til vatns þess er Áin helga fellur úr, gerðu þar í árósinum stíflu með viðum og torfi og stemma svo uppi vatnið og svo skáru þeir díki stór og hleyptu saman fleirum vötnunum og gerðust þar víðir flóar en í árveginn hjuggu þeir stórviðu. Þeir voru í þessu starfi marga daga og hafði Ólafur konungur allt tilstilli um brögð þessi en Önundur konungur hafði þá stjórn yfir skipahernum.
Knútur konungur spurði til ferða þeirra konunga og svo skaða þann allan er þeir höfðu gert á ríki hans, heldur þá til móts við þá þar er þeir lágu í Ánni helgu og hafði her mikinn og hálfu meira en þeir báðir.
Þessa getur Sighvatur:
- Létat af jöfur,
- ætt manna fannst,
- Jótlands etast
- ílendr, að því.
- Vildi foldar
- fæst rán Dana
- hlífskjöldr hafa.
- Höfuðfremstr jöfur.