Heimskringla/Ólafs saga helga/158

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
158. Ferð Háreks úr Þjóttu


Hárekur úr Þjóttu svarar máli Ólafs konungs, segir svo: „Það er auðsætt að eigi má eg fara fæti til Noregs. Eg em maður gamall og þungur og vanur lítt göngum. Ætla eg trauður að skiljast við skip mitt. Hefi eg lagt þá stund á um skip það og búnað þess að mér mun leitt að ljá óvinum mínum fangs á skipi því.“

Konungur svarar: „Far þú með oss Hárekur. Vér skulum bera þig eftir oss ef þú mátt eigi ganga.“

Hárekur kvað þá vísu:

Ráðið hefi eg að ríða
Rínleygs héðan mínum
láðs dynmari leiðar
löngum heldr en ganga,
þótt leggfjöturs liggi
lundr í Eyrarsundi,
kann þjóð kerski minni,
Knútr, herskipum úti.

Þá lét Ólafur konungur búa ferð sína. Höfðu menn ígangsklæði sín og vopn og það sem fékkst af reiðskjótum, þá var klyfjað af klæðum og lausafé. En hann sendi menn og lét flytja skip sín austur í Kalmarnir. Létu þeir þar upp setja skipin og flytja reiða allan og annan varnað til varðveislu.

Hárekur gerði sem hann hafði sagt að hann beið byrjar og sigldi síðan austan fyrir Skáni til þess er hann kom austan að Hölunum og var það aftan dags. En byr var á blásandi. Þá lét hann ofan leggja seglið og svo viðu, taka ofan veðurvitann og sveipa skipið allt fyrir ofan sjá með grám tjöldum og lét róa í nokkurum rúmum fram og aftur en lét flesta menn sitja lágt í skipinu.

Og sáu varðmenn Knúts konungs skipið og ræddu um sín í milli hvað skipa það mundi vera og gátu þess að vera mundi flutt salt eða síld er þeir sáu fá mennina en lítinn róðurinn en skipið sýndist þeim grátt og bráðlaust og sem skipið mundi skinið af sólu og sáu þeir að skipið var sett mjög.

En er Hárekur kom fram í sundið og um herinn þá lét hann reisa viðuna og draga seglið, lét setja upp gyllta veðurvita. Var seglið hvítt sem drift og stafað rauðu og blá með vendi. Þá sáu menn Knúts konungs og segja konungi að meiri von var, að Ólafur konungur hefði þar um siglt.

En Knútur konungur segir svo að Ólafur konungur væri svo vitur maður að hann hefði eigi farið einskipa í gegnum her Knúts konungs og lést líklegra þykja að þar mundi verið hafa Hárekur úr Þjóttu eða hans maki.

Það hafa menn fyrir satt að Knútur konungur hafi vitað um ferð Háreks og hann mundi eigi svo farið hafa ef eigi hefði áður farið vináttumál milli þeirra Knúts konungs og þótti það birtast eftir þá er vinátta þeirra Knúts konungs og Háreks gerðist alkunna.

Hárekur orti vísu þessa þá er hann sigldi norður um Veðurey:

Lækkat eg Lundar ekkjur,
læbaugs, að því hlæja,
skjótum eik fyr utan
ey, né danskar meyjar,
Jörð, að eg eigi þorði,
ifla flausts, á hausti
á flatslóðir Fróða
fara aftr vali krafta.

Fór Hárekur þá ferðar sinnar og létti eigi fyrr en hann kom norður á Hálogaland og til bús síns í Þjóttu.