Heimskringla/Ólafs saga helga/160
Sighvatur skáld hafði verið lengi með Ólafi konungi svo sem hér er ritið og hafði konungur gert hann stallara sinn. Sighvatur var ekki hraðmæltur maður í sundurlausum orðum en skáldskapur var honum svo tiltækur að hann kvað af tungu fram svo sem hann mælti annað mál. Hann hafði verið í kaupferðum til Vallands og í þeirri ferð hafði hann komið til Englands og hitt Knút hinn ríka og fengið af honum leyfi að fara til Noregs svo sem fyrr var ritið.
En er hann kom í Noreg þá fór hann þegar til fundar við Ólaf konung og hitti hann í Borg, gekk fyrir konung þá er hann sat yfir borðum. Sighvatur kvaddi hann. Konungur leit við honum og þagði.
Sighvatur kvað:
- Heim erum hingað komnir,
- hygg þú at, jöfur skatna,
- menn nemi mál sem eg inni
- mín, stallarar þínir.
- Segðu hvar sess hafið hugðan,
- seims, þjóðkonungr beima,
- allr er þekkr, með þollum,
- þinn skáli mér innan.
Þá sannaðist það er fornkveðið mál er að mörg eru konungs eyru. Ólafur konungur hafði spurt allt um farar Sighvats að hann hafði hitt Knút konung.
Ólafur konungur mælti til Sighvats: „Eigi veit eg hvort þú ætlar nú að vera minn stallari. Eða hefir þú nú gerst maður Knúts konungs?“
Sighvatur kvað:
- Knútr spurði mig, mætra
- mildr, ef eg honum vildi
- hendilangr sem, hringa,
- hugreifum Óleifi.
- Einn kvað eg senn, en sönnu
- svara þóttumst eg, dróttin,
- gefin eru gumna hverjum
- góð dæmi, mér sæma.
Þá mælti Ólafur konungur að Sighvatur skyldi ganga til sætis þess er hann var vanur að hafa fyrr. Kom Sighvatur sér þá enn brátt í kærleika hina sömu sem áður hafði hann haft.