Heimskringla/Ólafs saga helga/162

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
162. Frá jólagjöfum Ólafs konungs


Ólafur konungur hafði jólaboð mikið og var þá komið til hans mart stórmenni.

Það var hinn sjöunda dag jóla að konungur gekk og fáir menn með honum. Sighvatur fylgdi konungi dag og nótt. Hann var þá með honum. Þeir gengu í hús eitt. Þar voru hirðir í dýrgripir konungs. Hann hafði þá hafðan viðurbúnað mikinn sem vandi var til, heimt saman dýrgripi sína til þess að gefa vingjafir hið átta kveld jóla. Þar stóðu í húsinu sverð eigi allfá gullbúin.

Þá kvað Sighvatur:

Sverð standa þar, sunda
sárs leyfum vér árar,
herstillis verðr hylli
hollust, búin gulli.
Við tæki eg, víka,
var eg endr með þér, sendir
elds, ef þú eitthvert vildir,
allvaldr, gefa skaldi.

Konungur tók eitthvert sverðið og gaf honum. Var gulli vafður meðalkaflinn og gullbúin hjölt. Var sá gripur allgóður en gjöfin var eigi öfundlaus og heyrði það síðan.

Þegar eftir jólin byrjaði Ólafur konungur ferð sína til Upplanda því að hann hafði fjölmenni mikið en tekjur norðan úr landi höfðu engar til hans komið þá um haustið því að leiðangur hafði úti verið um sumarið og hafði þar konungur allan kostnað til lagt, þann er föng var á. Þá voru og engi skip að fara með lið sitt norður í land. Hann spurði og það einu norðan er honum þótti ekki friðsamlegt ef hann færi eigi með liði miklu. Réð konungur fyrir þá sök það af að fara yfir Upplönd. En eigi var þá svo langt liðið síðan er hann hafði þar farið að veislum sem lög stóðu til eða vandi konunga hafði verið. En er konungur sótti upp á land þá buðu honum heim lendir menn og ríkir bændur og léttu svo hans kostnaði.