Heimskringla/Ólafs saga helga/203
Síðan er konungur sótti ofan af fjallinu þá var bær sá fyrir þeim er á Súlu heitir í ofanverðri byggðinni í Verdælafylki. En er þeir sóttu ofan að bænum þá lágu akrar við veginn. Konungur bað menn fara spaklega og spilla eigi eng fyrir bónda. Gerðu menn það vel meðan konungur var við en þær sveitir er síðar fóru, þá gáfu ekki þessu gaum og hljópu menn svo um akurinn að hann var allur lagður að jörðu.
Sá búandi er þar bjó er nefndur Þorgeir flekkur. Hann átti tvo sonu vel frumvaxta. Þorgeir fagnaði vel konungi og hans mönnum og bauð honum allan þann forbeina er hann hafði föng á. Konungur tók því vel og spurði þá Þorgeir að tíðindum, hvað títt væri þar í landi eða hvort safnaður nokkur mundi þar vera ger í móti honum.
Þorgeir segir að lið mikið var saman dregið þar í Þrándheimi og þar voru komnir lendir menn bæði sunnan úr landi og norðan af Hálogalandi. „En eigi veit eg,“ segir hann, „hvort þeir ætla því liði að stefna yður í mót eða í annan stað.“
Síðan kærði hann fyrir konungi skaða sinn og óspekt konungsmanna er þeir höfðu niður brotið og troðið akra hans alla. Konungur segir að það var illa orðið er honum var mein gert.
Síðan reið konungur til þar sem akurinn hafði staðið og sá að akurinn var allur að jörðu lagður. Hann reið umhverfis og mælti síðan: „Þess vænti eg búandi að guð mun leiðrétta skaða þinn og mun akur þessi betri á viku fresti.“
Og varð það hinn besti akur sem konungur sagði.
Konungur dvaldist þar um nótt en að morgni bjó hann ferð sína. Hann segir að Þorgeir bóndi skyldi fara með honum. En er hann bauð til ferðar tvo sonu sína þá segir konungur að þeir skulu eigi fara með honum en sveinar vildu þó fara. Konungur bað þá eftir vera en er þeir vildu ekki letjast þá vildu hirðmenn konungs binda þá.
Konungur mælti er hann sá það: „Fari þeir, aftur munu þeir koma.“
Svo fór sem konungur sagði um sveinana.