Heimskringla/Ólafs saga helga/205
Ólafur konungur hafði þá til sanns spurt að skammt mundi vera til þess er hann mundi orustu eiga við bændur. En síðan er hann hafði kannað lið sitt og skorað var manntal og hafði hann þá meir en þrjá tigu hundruð manna og þótti það þá vera mikill her á einum velli.
Síðan talaði konungur fyrir liðinu og mælti svo: „Vér höfum mikinn her og frítt lið. Nú vil eg segja mönnum hverja skipan eg vil hafa á liði voru. Eg mun láta fara merki mitt fram í miðju liði og skal þar fylgja hirð mín og gestir og þar með lið er til vor kom af Upplöndum og svo það lið er hér kom til vor í Þrándheimi. En til hægri handar frá mínu merki skal vera Dagur Hringsson og með honum það lið allt er hann hafði til föruneytis við oss. Skal hann hafa annað merki. En til vinstri handar frá minni fylking skal vera það lið er Svíakonungur fékk oss og allt það lið er til vor kom í Svíaveldi. Skulu þeir hafa hið þriðja merki. Vil eg að menn skiptist í sveitir og heimtist saman frændur og kunnmenn því að þá mun hver annars best gæta og hver annan kenna. Vér skulum marka lið vort allt, gera herkuml á hjálmum vorum og skjöldum, draga þar með bleiku á krossinn helga. En ef vér komum í orustu þá skulum vér hafa allir eitt orðtak: „Fram, fram, Kristsmenn, krossmenn, konungsmenn!“ Vér munum hljóta þunnar fylkingar ef vér höfum lið færra því að eg vil að þeir kringi eigi um oss sínu liði. Skiptist menn nú í sveitir en síðan skal sveitum skipa í fylkingar og viti þá hver sína stöðu og gefi gaum að hvert hann er frá merki því er hann er undir skipaður. Vér munum nú halda fylkingu og skulu menn hafa alvæpni dag og nótt þar til er vér vitum hvar fundur vor mun verða og búanda.“
Síðan er konungur hafði talað þá fylktu þeir liði sínu og skipuðu eftir því sem konungur hafði fyrir mælt. Eftir það átti konungur stefnu við sveitarhöfðingja. Voru þá komnir þar menn er konungur hafði sent í héraðið að krefja búendur liðs. Þeir kunnu þau tíðindi úr byggðinni að segja, þar sem þeir höfðu farið, að víða var aleyða að vígjum mönnum og var það fólk farið í bóndasafnað en þar sem þeir hittu menn þá vildu fáir þeim fylgja en flestir svöruðu því að fyrir þá sök sátu heima að þeir vildu hvorigum fylgja, vildu eigi berjast móti konungi og eigi móti frændum sínum. Höfðu þeir fátt lið fengið.
Þá spurði konungur menn ráðs hvað sýndist tiltækilegast.
Finnur svarar máli konungs: „Segja mun eg,“ segir hann, „hvernug gert mundi ef eg skyldi ráða. Þá mundum vér fara herskildi um allar byggðir, ræna fé öllu en brenna svo vendilega byggð alla að aldrei stæði kot eftir, gjalda svo bóndum drottinsvikin. Hygg eg að margur mundi þá laus vera við flokkinn ef hann sér heim reyk eða loga til húsa sinna en veit ógerla hvað er títt er um börn eða konur eða gamalmenni, feður þeirra eða mæður eða annað frændlið. Vænti eg,“ segir hann, „ef nokkurir ráða til að rjúfa safnaðinn að þá muni brátt þynnast fylkingar þeirra því að svo er bóndum gefið að það ráð er þá er nýjast, það er þá öllum kærst.“
En er Finnur lauk máli sínu þá gerðu menn þar að góðan róm. Líkaði mörgum vel að ráða til féfanga en öllum þóttu bændur maklegir til skaða en líklegt það er Finnur sagði að bændur mundu vera margir lausir við safnaðinn.
Þormóður Kolbrúnarskáld kvað þá vísu:
- Brennum öll fyr innan
- Inney, þau er vér finnum,
- land tegast her með hjörvi,
- hverbjörg, fyr gram verja.
- Ýs, hafi allra húsa
- Innþrændir kol sinna,
- angr skal kveikt í klungri,
- köld, ef eg má valda.
En er Ólafur konungur heyrði ákafa lýðsins þá krafði hann sér hljóðs og mælti síðan: „Hafa bændur verðleik til þess að svo væri gert sem þér viljið. Það vita þeir að eg hefi gert það að brenna innin fyrir þeim og veitt þeim aðrar stórar refsingar. Gerði eg þá það að brenna fyrir þeim er þeir höfðu áður gengið af trú sinni og tekið upp blót en vildu ekki láta að orðum mínum. Áttum vér þá guðs réttar að reka. Nú eru þessi drottinsvik miklu minna verð þótt þeir haldi eigi trú sína við mig og munu þó þessi eigi þykja vel sama þeim er manndómsmenn vilja vera. Nú á eg hér nokkuru heimilla að veita nokkura frían er þeir misgera við mig en þá er þeir hötuðust við guð. Nú vil eg að menn fari spaklega og geri engi hervirki. Vil eg fara fyrst til fundar við bændur. Og sættumst vér, þá er vel, en ef þeir halda bardaga í móti oss þá eru þar tveir kostir fyrir höndum og ef vér föllum í orustu, þá er því vel ráðið að fara þangað eigi með ránfé, en ef vér sigrumst þá skuluð þér vera arftökumenn þeirra er nú berjast móti oss því að þeir munu þar sumir falla en sumir flýja og hafa hvorirtveggju fyrirgert allri eigu sinni. En þá er gott að ganga til búa stórra, en bæir veglegir, en þess nýtur engi er brennt er. Svo ránfé fer að spjöllum, miklu meiri hluti en það er nýtt verður af. Skulum vér nú fara dreift út eftir byggðinni og hafa með oss alla vígja menn þá er vér fáum. Skulu menn og höggva bú eða taka aðra vist svo sem menn þurfa til að fæða sig en menn geri ekki annað spellvirki. Vel þykir mér að drepnir séu njósnarmenn bónda ef þér takið þá. Skal Dagur fara og hans lið hið nyrðra ofan eftir dalnum en eg mun fara út þjóðveginn og hittumst að kveldi. Höfum allir eitt náttból.“