Heimskringla/Ólafs saga helga/215
Enn varð sá atburður þá er Ólafur konungur var kominn á Stiklastaði að maður einn kom til hans. En það var eigi af því undarlegt að margir menn komu til konungs úr héruðum en því þótti það nýnæmi að þessi maður var ekki öðrum líkur, þeim er þá höfðu til konungs komið. Hann var maður svo hár að engi annarra tók betur en í öxl honum. Hann var allfríður maður sýnum og fagurhár. Hann var vel vopnaður, hafði hjálm allfríðan og hringabrynju, skjöld rauðan og gyrður með sverði búnu, hafði í hendi gullrekið spjót mikið og svo digurt skaftið að handfyllur var í. Sá maður gekk fyrir konung og kvaddi hann og spurði ef konungur vildi þiggja lið að honum.
Konungur spurði hvert nafn hans væri eða kynferð eða hvar hann var landsmaður.
Hann svarar: „Eg á kyn á Jamtalandi og Helsingjalandi. Eg em kallaður Arnljótur gellini. Kann eg yður það helst frá að segja að eg veitti forbeina mönnum þínum, þeim er þér senduð til Jamtalands að heimta þar skatt. Fékk eg þeim í hendur silfurdisk er eg sendi yður til jartegna að eg vildi vera vinur yðar.“
Þá spurði konungur hvort Arnljótur væri kristinn maður eða eigi.
Hann segir það frá átrúnaði sínum að hann tryði á mátt sinn og megin. „Hefir mér sá átrúnaður unnist að gnógu hér til. En nú ætla eg heldur að trúa á þig konungur.“
Konungur svarar: „Ef þú vilt á mig trúa þá skaltu því trúa er eg kenni þér. Því skaltu trúa að Jesús Kristur hefir skapað himin og jörð og menn alla og til hans skulu fara eftir dauða allir menn þeir er góðir eru og rétttrúaðir.“
Arnljótur svarar: „Heyrt hefi eg getið Hvíta-Krists en ekki er mér kunnigt um athöfn hans eða hvar hann ræður fyrir. Nú vil eg trúa því öllu er þú segir mér. Vil eg fela á hendi þér allt mitt ráð.“
Síðan var Arnljótur skírður. Kenndi konungur honum það af trúnni er honum þótti skyldast vera og skipaði honum í öndverða fylking og fyrir merki sínu. Þar var fyrir Gauka-Þórir og Afra-Fasti og sveitungar þeirra.