Heimskringla/Ólafs saga helga/217
Knútur hinn ríki hafði lagt undir sig land allt í Noregi sem fyrr var ritað og það með að hann setti til ríkis Hákon jarl. Hann fékk jarli hirðbiskup þann er Sigurður er nefndur. Var hann danskur að kyni og hafði lengi verið með Knúti konungi. Var biskup sá ákafamaður í skapi og sundurgerðarmaður í orðum sínum. Veitti hann Knúti konungi orðafullting allt það er hann kunni en var hinn mesti óvinur Ólafs konungs. Sá biskup var í her þessum og talaði oftlega fyrir búandaliði og eggjaði mjög uppreistar móti Ólafi konungi.