Heimskringla/Ólafs saga helga/224

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
224. Frá her konungs og bónda


Síðan fluttu bændur her sinn til Stiklastaða. Þar var Ólafur konungur fyrir með sitt lið. Fór í öndurðu liðinu Kálfur og Hárekur fram með merkinu. En er þeir mættust þá tókst eigi allskjótt árásin því að bændur frestuðu atgöngu fyrir þá sök að lið þeirra fór hvergi nær allt jafnfram og biðu þeir þess liðs er síðar fór.

Þórir hundur hafði farið síðast með sína sveit því að hann skyldi til gæta að ekki slægist aftur liðið þá er herópið kæmi upp eða liðið sæist og biðu þeir Kálfur Þóris. Bændur höfðu það orðtak í her sínum að eggja lið sitt í orustu: „Fram, fram búandmenn!“

Ólafur konungur gerði eigi atgönguna fyrr að hann beið Dags og þess liðs er honum fylgdi. Sáu þeir konungur þá lið Dags, hvar það fór.

Svo er sagt að bændur hefðu eigi minna lið en hundrað hundraða. En Sighvatur segir svo:

Ólmr erumk harmr sá er hilmir
hafði, gulli vafðan
jöfur kreisti sá, austan
aflfátt, meðalkafla.
Gagn fengu því þegnar,
þeir að hálfu fleiri,
hvötuð tældi það hildar,
hvorungi frý eg, voru.