Heimskringla/Ólafs saga helga/236

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
236. Jartegnir við blindan mann


Þorgils Hálmuson og Grímur sonur hans fóru til valsins um kveldið er myrkt var orðið. Þeir tóku upp lík Ólafs konungs og báru brott þar til er var húskytja nokkur lítil og auð annan veg frá bænum, höfðu ljós með sér og vatn, tóku þá klæði af líkinu og þógu líkið og sveiptu síðan með líndúkum og lögðu þar niður í húsinu og huldu með viðum svo að engi mátti sjá þótt menn kæmu í húsið. Gengu þeir síðan í brott og heim til bæjarins.

Þar hafði fylgt hernum hvorumtveggja mart stafkarla og það fátækisfólk er sér bað matar. En það kveld eftir bardagann hafði það fólk þar mart dvalist og er náttaði leitaði það sér herbergis um öll hús, bæði smá og stór.

Þar var einn blindur maður sá er sagt er frá. Hann var fátækur og fór sveinn hans með honum og leiddi hann. Þeir gengu úti um bæinn og leituðu sér herbergis. Þeir komu að því sama eyðihúsi. Voru dyrnar svo lágar að nær varð að krjúpa inn. Og er hinn blindi maður kom í húsið þá þreifaðist hann fyrir um gólfið, leitaði hvort hann mundi mega niður leggjast. Hött hafði hann á höfði og steyptist hötturinn fyrir andlit honum er hann laut niður. Hann kenndi fyrir höndunum að tjörn var á gólfinu. Þá tók hann upp hendinni votri og rétti upp höttinn og komu fingurnir upp við augun en þegar brá kláða á hvarmana svo miklum að hann strauk með fingrunum votum augun sjálf. Síðan hopaði hann út úr húsinu og sagði að þar mátti ekki liggja inni því að þar var allt vott.

Og er hann kom út úr húsinu þá sá hann þegar fyrst skil handa sinna og allt það er nær honum var það er hann mátti sjá fyrir náttmyrkri. Hann gekk þegar heim til bæjarins og inn í stofu og sagði þar öllum mönnum að hann hafði fengið sýn sína og hann var þá skyggn maður. En það vissu þar margir menn að hann hafði lengi blindur verið því að hann hafði þar áður verið og gengið um byggðir.

Hann segir að þá sá hann fyrst er hann kom út úr húsi nokkru litlu og vondu „og var þar vott allt inni,“ segir hann. „Greip eg þar í höndunum og gneri eg votum höndum um augu mér.“

Hann segir og hvar það hús stóð. En þeir menn er þar voru og sáu þessi tíðindi undruðust mjög um þenna atburð og ræddu sín í milli hvað þar mundi inni vera í því húsi.

En Þorgils bóndi og sonur hans Grímur þóttust vita hvaðan af þessi atburður mundi hafist hafa. Þeir hræddust mjög að óvinir konungs mundu fara og rannsaka húsið. Síðan leyndust þeir í brott og fóru til hússins og tóku líkið, fluttu í brott út í hagann og fálu þar, fóru síðan til bæjar og sváfu af nótt þá.