Heimskringla/Ólafs saga helga/245

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
245. Frá jartegn Ólafs konungs


Þar á melnum sem Ólafur konungur hafði í jörðu legið kom upp fagur brunnur og fengu menn bót meina sinna af því vatni. Var þar veittur umbúnaður og hefir það vatn verið jafnan síðan vandlega varðveitt. Kapella var fyrst ger og þar sett altarið sem verið hafði leiðið konungsins en nú stendur í þeim stað Kristskirkja. Lét Eysteinn erkibiskup þar setja háaltarið í þeim sama stað sem leiðið hafði verið konungsins þá er hann reisti þetta hið mikla musteri er nú stendur. Hafði og verið í þeim stað háaltari í fornu Kristskirkju.

Svo er sagt að Ólafskirkja standi nú þar sem þá stóð sú eyðiskemma er lík Ólafs konungs var náttsett í. Það er nú kallað Ólafshlið er heilagur dómur konungs var borinn upp af skipi og er það nú í miðjum bænum. Biskup varðveitti helgan dóm Ólafs konungs, skar hár hans og negl því að hvorttveggja óx svo sem þá að hann væri lifandi maður í þessum heimi.

Svo segir Sighvatur skáld:

Lýg eg, nema Ólafr eigi
ýs sem kykvir tívar,
gæði eg helst í hróðri,
hárvöxt, konungs áru.
Enn helst þeim er son seldi,
svörðr, þann er óx í Görðum
hann fékk læs, af ljósum,
lausn, Valdimar, hausi.

Þórarinn loftunga orti um Svein Alfífuson kvæði það er Glælognskviða heitir og eru þessar vísur þar í:

Nú hefir sér
til sess hagað
þjóðkonungr
í Þrándheimi.
Þar vill æ
ævi sína
bauga brjótr
byggðum ráða.
Þar er Ólafr
áðan byggði,
áðr hann hvarf
til himinríkis
og þar varð,
sem vita allir,
kykvasettr
úr konungmanni.
Hafði sér
harðla ráðið
Haralds sonr
til himinríkis,
áðr seimbrjótr
að setti varð.
Þar svo að hreinn
með heilu liggr
lofsæll gramr
líki sínu,
og þar kná
sem á kvikum manni
hár og negl
honum vaxa.
Þar borðveggs
bjöllur knega
of sæng hans
sjálfar hringjast,
og hvern dag
heyra þjóðir
klukknahljóð
of konungmanni.
En þar upp
af altari
Kristi þæg
kerti brenna.
Svo hefir Ólafr,
áðr hann andaðist,
syndalaus
sálu borgið.
Þar kemr her
er heilagr er
konungr sjálfr,
krýpr að gagni,
en beiðendr
blindir sækja
þjóðar máls
en þaðan heilir.
Bið þú Ólaf,
að hann unni þér,
hann er guðs maðr,
grundar sinnar.
Hann um getr
af guði sjálfum
ár og frið
öllum mönnum.
Þá er þú rekr
fyr regin nagla
bókamáls
bænir þínar.

Þórarinn loftunga var þá með Sveini konungi og sá og heyrði þessi stórmerki heilagleiks Ólafs konungs, að af himneskum kröftum máttu menn heyra yfir hans helgum dómi hljóm svo sem klukkur hringdust og kerti tendruðust sjálf þar yfir altari af himneskum eldi.

En svo sem Þórarinn segir að til hins helga Ólafs konungs kom her manns, haltir og blindir eða á annan veg sjúkir en fóru þaðan heilir, getur hann ekki annars eða greinir, en það mundi vera ótallegur fjöldi manna er heilsu fengu þá þegar í upphafi af jartegnagerð hins helga Ólafs konungs. En hinar stærstu jartegnir Ólafs konungs, þá eru þær mest ritaðar og greindar og þær er síðar hafa gerst.