Heimskringla/Ólafs saga helga/26
Knútur konungur átti margar orustur á Englandi við sonu Aðalráðs Englakonungs og höfðu ýmsir betur. Hann kom það sumar til Englands sem Aðalráður andaðist. Þá fékk Knútur konungur Emmu drottningar. Voru börn þeirra Haraldur, Hörða-Knútur, Gunnhildur.
Knútur konungur sættist við Játmund konung. Skyldi hafa hálft England hvor þeirra. Á sama mánaði drap Heinrekur strjóna Játmund konung. Eftir það rak Knútur konungur af Englandi alla sonu Aðalráðs konungs.
Svo segir Sighvatur:
- Og senn sonu
- sló, hvern og þó,
- Aðalráðs eða
- út flæmdi Knútr.