Heimskringla/Ólafs saga helga/30
Ólafur konungur hélt inn af leið skipum sínum er hann kom suður yfir Fjalir og sneri inn til Sauðungssunda og lagðist þar, lágu sínum megin sundsins hvoru skipinu og höfðu milli sín kaðal digran.
Á þeirri sömu stundu reri að sundinu Hákon jarl Eiríksson með skeið skipaðri og hugðu þeir vera í sundinu kaupskip tvö. Róa þeir í sundið fram milli skipanna. Nú draga þeir Ólafur konungur strengina upp undir miðjan kjöl skeiðinni og undu með vindásum. Þegar er nokkur festi, gekk upp aftur en steyptist fram svo að sjárinn féll inn um söxin, fyllti skeiðina og því næst hvelfdi. Ólafur konungur tók þar af sundi Hákon jarl og alla þá menn hans er þeir náðu handtaka en suma drápu þeir en sumir sukku niður.
Svo segir Óttar:
- Blágjóða, tókstu, bræðir
- bengjálfrs, og þá sjálfa,
- skatti gnægðr, með skreyttu
- skeið Hákonar reiði.
- Ungr sóttir þú, Þróttar
- þings mágrennir, hingað,
- máttit jarl þau er áttuð
- áttlönd, fyrir því standa.
Hákon jarl var upp leiddur á skipið konungs. Var hann allra manna fríðastur er menn höfðu séð. Hann hafði hár mikið og fagurt sem silki, bundið um höfuð sér gullhlaði. Settist hann í fyrirrúmið.
Þá mælti Ólafur konungur: „Eigi er það logið af yður frændum hversu fríðir menn þér eruð sýnum en farnir eruð þér nú að hamingju.“
Þá segir Hákon: „Ekki er þetta óhamingja er oss hefir hent. Hefir það lengi verið að ýmsir hafa sigraðir verið. Svo hefir og farið með yðrum og vorum frændum að ýmsir hafa betur haft, en eg lítt kominn af barnsaldri. Vorum vér nú og ekki vel við komnir að verja oss, vissum vér nú ekki vonir til ófriðar. Kann vera að oss takist annað sinn betur til en nú.“
Þá svarar Ólafur konungur: „Grunar þig ekki það jarl að hér hafi svo að borið að þú munir hvorki fá héðan í frá sigur né ósigur?“
Jarl segir: „Þér munuð ráða konungur að sinni.“
Þá segir Ólafur konungur: „Hvað viltu til vinna jarl að eg láti þig fara hvert er þú vilt heilan og ósakaðan?“
Jarl spyr hvers hann vildi beiðast.
Konungur segir: „Einskis annars en þú farir úr landi og gefir svo upp ríki yðart og sverjir þess eiða að þér haldið eigi orustu héðan í frá í gegn mér.“
Jarl svarar, lést svo gera mundu. Nú vinnur Hákon jarl Ólafi konungi eiða að hann skal aldrei síðan berjast í móti honum og eigi verja Noreg með ófriði fyrir Ólafi konungi né sækja hann.
Þá gefur Ólafur konungur honum grið og öllum hans mönnum. Tók jarl við skipi því er hann hafði áður haft. Róa menn í brott leið sína.
Þess getur Sighvatur skáld:
- Ríkr kvað sér að sækja
- Sauðungs, konungr, nauðir,
- fremdargjarn, í fornu
- fund Hákonar, sundi.
- Strangr hitti þar þengill
- þann jarl, er var annar
- æstr og ætt gat besta
- ungr á danska tungu.