Heimskringla/Ólafs saga helga/69


Fám dögum síðar þá er Ólafur konungur var á stefnu kom þar Björn og þeir tólf saman. Hann segir þá konungi að þeir voru búnir að fara sendiförina og hestar þeirra stóðu úti söðlaðir.

„Vil eg nú vita,“ segir Björn, „með hverjum erindum eg skal fara eða hver ráð þú leggur fyrir oss.“

Konungur segir: „Þér skuluð bera Svíakonungi þau mín orð að eg vil frið setja milli landa vorra til þeirra takmarka sem Ólafur Tryggvason hafði fyrir mér og sé það bundið fastmælum að hvorigir gangi umfram. En um mannlát þá þarf þess engi að geta ef sættir skulu vera því að Svíakonungur fær oss eigi með fé bætt þann mannskaða er vér höfum fengið af Svíum.“

Þá stóð konungur upp og gekk út með þeim Birni. Þá tók hann upp sverð búið og fingurgull og seldi Birni. „Sverð þetta gef eg þér. Það gaf mér í sumar Rögnvaldur jarl. Til hans skuluð þér fara og bera honum þau mín orð að hann leggi til ráð og sinn styrk að þú komir fram erindinu. Þykir mér þá vel sýslað ef þú heyrir orð Svíakonungs og segi hann annað tveggja, já eða nei. En fingurgull þetta fær þú Rögnvaldi jarli. Þessar jartegnir mun hann kenna.“

Hjalti gekk að konungi og kvaddi hann „og þurfum vér nú þess mjög konungur að þú leggir hamingju þína á þessa ferð“ og bað þá heila hittast.

Konungur spurði hvert hann skyldi fara.

„Með Birni,“ segir hann.

Konungur segir: „Bæta mun það til um þessa ferð að þú farir með þeim því að þú hefir oft reyndur verið að hamingju. Vittu það víst að eg skal allan hug á leggja, ef það vegur nokkuð, og til leggja með þér mína hamingju og öllum yður.“

Þeir Björn riðu í brott leið sína og komu til hirðar Rögnvalds jarls. Var þeim þar vel fagnað.

Björn var frægur maður, af mörgum mönnum kunnur, bæði að sýn og að máli, þeim öllum er séð höfðu Ólaf konung, því að Björn stóð upp á hverju þingi og talaði konungserindi.

Ingibjörg kona jarls gekk að Hjalta og hvarf til hans. Hún kenndi hann því að hún var þá með Ólafi Tryggvasyni bróður sínum er Hjalti var þar. Og taldi Hjalti frændsemi milli konungs og Vilborgar konu Hjalta. Þeir voru bræður, synir Víkinga-Kára, lends manns á Vörs, Eiríkur bjóðaskalli faðir Ástríðar, móður Ólafs konungs Tryggvasonar, og Böðvar faðir Ólafar, móður Gissurar hvíta, föður Vilborgar. Nú voru þeir þar í góðum fagnaði.

Einn dag gengu þeir Björn á tal við jarl og þau Ingibjörgu. Þá ber Björn upp erindi sín og sýnir jartegnir jarli.

Jarl spyr: „Hvað hefir þig Björn þess hent er konungur vill dauða þinn? Er þér að síður fært með þessi orðsending, að eg hygg, að engi mun sá vera, er þessum orðum mælir fyrir Svíakonungi, að refsingalaust komist í brott. Miklu er Ólafur Svíakonungur maður skapstærri heldur en fyrir honum sjálfum megi þær ræður hafa er honum séu í móti skapi.“

Þá segir Björn: „Engir hlutir hafa þeir að borist mér til handa er Ólafur konungur hefir mér reiðst um en mörg er sú ráðagerð hans, bæði fyrir sjálfum sér og mönnum sínum, er hætting mun á þykja hvernug tekst, þeim mönnum er áræðislitlir eru, en öll ráð hans hafa enn til hamingju snúist hér til og væntum vér að svo skuli enn fara. Nú er yður það jarl satt að segja að eg vil fara á fund Svíakonungs og eigi fyrr aftur hverfa en eg hefi hann heyra látið öll þau orð er Ólafur konungur bauð mér að flytja til eyrna honum nema mér banni hel eða sé eg heftur svo að eg megi eigi fram koma. Svo mun eg gera hvort sem þér viljið nokkurn hug á leggja orðsending konungs eða engan.“

Þá mælti Ingibjörg: „Skjótt mun eg birta minn hug, að eg vil jarl að þér leggið á allan hug að stoða orðsending Ólafs konungs svo að þetta erindi komist fram við Svíakonung hverngan veg sem hann vill svara. Þótt þar liggi við reiði Svíakonungs eða öll eign vor eða ríki þá vil eg miklu heldur til þess hætta en hitt spyrjist að þú leggist undir höfuð orðsending Ólafs konungs fyrir hræðslu sakir fyrir Svíakonungi. Hefir þú til þess burði og frændastyrk og alla aðferð að vera svo frjáls hér í Svíaveldi að mæla mál þitt, það er vel samir og öllum mun þykja áheyrilegt, hvort sem á heyra margir eða fáir, ríkir eða óríkir og þótt konungur sjálfur heyri á.“

Jarl svarar: „Ekki er það blint hvers þú eggjar. Nú má vera að þú ráðir þessu að eg heiti konungsmönnum því að fylgja þeim svo að þeir nái að flytja erindi sín fyrir Svíakonungi hvort sem konungi líkar það vel eða illa. En mínum ráðum vil eg láta fram fara hvert tilstilli hafa skal en eg vil eigi hlaupa eftir ákafa Bjarnar eða annars manns um svo mikil vandamál. Vil eg að þeir dveljist með mér til þeirrar stundar er mér þykir nokkuru líklegast að framkvæmd megi verða að þessu erindi.“

En er jarl hafði því upp lokið að hann mundi fylgja þeim að þessu máli og leggja til þess sinn styrk þá þakkaði Björn honum vel og kvaðst hans ráðum vilja fram fara.

Dvöldust þeir Björn með jarli mjög langa hríð.