Heimskringla/Ólafs saga helga/71
Það hafði verið, áður Björn fór heiman, að hann hafði beðið Sighvat skáld til farar með sér, hann var þá með Ólafi konungi, en til þeirrar farar voru menn ekki fúsir. Þar var vingott með þeim Birni og Sighvati.
Hann kvað:
- Áðr hefi eg gott við góða
- grams stallara alla
- átt, þá er ossum drottni,
- ógndjarfs, um kné hvarfa.
- Björn, fastu oft að árna,
- íss, fyr mér að vísa
- góðs, meguð gott um ráða,
- gunnrjóðr, alls vel kunnuð.
En er þeir riðu upp á Gautland kvað Sighvatur vísur þessar:
- Kátr var eg oft þá er úti
- örðigt veðr á fjörðum
- vísa segl í vosi
- vindblásið skóf Strinda.
- Hestr óð kafs að kostum.
- Kilir hristu men Lista,
- út þar er eisa létum
- undan skeiðr að sundi.
- Snjalls létum skip skolla
- skjöldungs við ey tjölduð
- fyr ágætu úti
- öndurt sumar landi.
- En í haust, þar er hestar
- hagþorns á mó sporna,
- ték eg ýmissar, Ekkils,
- íðir, hlautk að ríða.
En er þeir riðu upp um Gautland síð um aftan þá kvað Sighvatur:
- Jór renn aftanskæru
- allsvangr götur langar.
- Völl kná hófr til hallar,
- höfum lítinn dag, slíta.
- Nú er það er blakkr um bekki
- berr mig Dönum ferri.
- Fákr laust drengs í díki,
- dægr mætast nú, fæti.
Þá ríða þeir í kaupstaðinn að Skörum og um strætið fram að garði jarls.
Hann kvað:
- Út munu ekkjur líta
- allsnúðula prúðar,
- fljóð sjá reyk, hvar ríðum
- Rögnvalds í bæ gögnum.
- Keyrum hross svo að heyri
- harða langt að garði
- hesta rás úr húsum
- hugsvinn kona innan.