Heimskringla/Ólafs saga helga/75

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
75. Hamlaðir Upplendingakonungar


Á þeirri stefnu var Ketill af Hringunesi. En er hann kom heim um kveldið þá mataðist hann að náttverði en þá klæddist hann og húskarlar hans og fór ofan til vatns og tók karfann er Ketill átti er Ólafur konungur hafði gefið honum, settu fram skipið, var þar í naustinu allur reiðinn, taka þá og skipast til ára og róa út eftir vatni. Ketill hafði fjóra tigu manna, alla vel vopnaða. Þeir komu um daginn snemma út til vatnsenda. Fór þá Ketill með tuttugu menn en lét aðra tuttugu eftir að gæta skips.

Ólafur konungur var þá á Eiði á ofanverðu Raumaríki. Ketill kom þar þá er konungur gekk frá óttusöng. Fagnaði hann Katli vel. Ketill segir að hann vill tala við konung skjótt. Þeir ganga á tal tveir saman. Þá segir Ketill konungi hver ráð konungarnir hafa með höndum og alla tilætlan þá er hann var vís orðinn.

En er konungur varð þess var þá kallar hann menn til sín, sendir suma í byggðina, bað þá stefna til sín reiðskjótum, suma sendi hann til vatnsins að taka róðrarskip þau er þeir fengju og hafa í móti sér. En hann gekk þá til kirkju og lét syngja sér messu, gekk síðan þegar til borða.

En þá er hann hafði matast bjóst hann sem skyndilegast og fór upp til vatnsins. Komu þar skip í móti honum. Steig hann þá sjálfur á karfann og með honum menn svo margir sem karfinn tók við en hver annarra tók sér þar skip sem helst fékk. Og um kveldið er á leið létu þeir frá landi. Logn var veðurs. Þeir reru út eftir vatninu. Konungurinn hafði þá nær fjórum hundruðum manna.

Fyrr en dagaði kom hann upp til Hringisakurs. Urðu varðmenn eigi fyrr varir við en liðið kom upp til bæjarins. Þeir Ketill vissu gerva í hverjum herbergjum konungarnir sváfu. Lét konungur taka öll þau herbergi og gæta að engi maður kæmist í brott, biðu svo lýsingar. Konungarnir höfðu eigi liðskost til varnar og voru þeir allir höndum teknir og leiddir fyrir konung.

Hrærekur konungur var maður forvitri og harðráður. Þótti Ólafi konungi hann ótrúlegur þótt hann gerði nokkura sætt við hann. Hann lét blinda Hrærek báðum augum og hafði hann með sér en hann lét skera tungu úr Guðröði Dalakonungi. En Hring og aðra tvo lét hann sverja sér eiða og fara í brott úr Noregi og koma aldrei aftur. En lenda menn eða bændur þá er sannir voru að þessum svikræðum rak hann suma úr landi, sumir voru meiddir, af sumum tók hann sættir.

Frá þessu segir Óttar svarti:

Lýtandi, hefir ljótu
landsráðöndum, branda,
umstillingar allar,
ifla folds, um goldið.
Hafa léstu heinska jöfra,
herskorðandi, forðum
mundangs laun þá er meinum,
mætr gramr, við þig sættu.
Braut hafið, böðvar þreytir,
branda rjóðr, úr landi,
meir fannst þinn en þeira
þrekr, döglinga rekna.
Stökk, sem þjóð um þekkir,
þér hverr konungr ferri.
Heftuð ér en eftir
orðreyr þess er sat norðast.
Nú ræðr þú fyr þeiri,
þik remmir guð miklu,
fold, er forðum héldu
fimm bragningar, gagni.
Breið eru austr til Eiða
ættlönd und þér. Göndlar
engr sat elda þröngvir
áðr að slíku láði.

Ólafur konungur lagði þá undir sig það ríki er þessir fimm konungar höfðu átt, tók þá gíslar af lendum mönnum og bóndum. Hann tók veislugjöld norðan úr Dölum og víða um Heiðmörk og sneri þá út aftur á Raumaríki og þá vestur á Haðaland.

Þann vetur andaðist Sigurður sýr mágur hans. Þá sneri Ólafur konungur á Hringaríki og gerði Ásta móðir hans veislu mikla í móti honum. Bar þá Ólafur einn konungsnafn í Noregi.