Heimskringla/Ólafs saga helga/81

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
81. Frá svikum Hræreks konungs


Ólafur konungur fór er voraði út til sævar og lét búa skip sín og stefndi til sín liði og fór um vorið allt út eftir Víkinni til Líðandisness og allt fór hann norður á Hörðaland, sendi þá orð lendum mönnum og nefndi alla hina ríkustu menn úr héruðum og bjó þá ferð sem veglegast er hann fór í mót festarkonu sinni. Veisla sú skyldi vera um haustið austur við Elfi við landamæri.

Ólafur konungur hafði með sér Hrærek konung blinda. En er hann var gróinn sára sinna þá fékk Ólafur konungur tvo menn til þjónustu við hann og lét hann sitja í hásæti hjá sér og hélt hann að drykk og að klæðum engum mun verr en hann hafði áður haldið sig sjálfur.

Hrærekur var fámálugur og svaraði stirt og stutt þá er menn ortu orða á hann. Það var siðvenja hans að hann lét skósvein sinn leiða sig úti um daga og frá öðrum mönnum. Þá barði hann knapann en er hann hljóp frá honum þá segir hann Ólafi konungi að sá sveinn vildi honum ekki þjóna. Þá skipti Ólafur konungur við hann þjónustumönnum og fór allt sem áður að engi þjónustumaður hélst við með Hræreki konungi.

Þá fékk Ólafur konungur til fylgdar og til gæslu við Hrærek þann mann er Sveinn hét og var hann frændi Hræreks konungs og hafði verið hans maður áður. Hrærekur hélt teknum hætti um stirðlæti og svo um einfarar sínar. En er þeir Sveinn voru tveir saman staddir þá var Hrærekur kátur og málrætinn. Hann minntist þá á marga hluti þá er fyrr höfðu verið og það er um hans daga hafði að borist þá er hann var konungur og minntist á ævi sína hina fyrri og svo á það hver því hafði brugðið, hans ríki og hans sælu, en gert hann að ölmusumanni. „En hitt þykir mér þó allra þyngst,“ segir hann, „er þú eða aðrir frændur mínir, þeir er mannvænir höfðu verið, skulu nú verða svo miklir ættlerar að engrar svívirðingar skulu hefna, þeirrar er á ætt vorri er ger.“

Þvílíkar harmtölur hafði hann oft uppi. Sveinn svarar og segir að þeir ættu við ofureflismenn mikla að skipta en þeir áttu þá litla kosti.

Hrærekur mælti: „Til hvers skulum vér lengi lifa við skömm og meiðslur nema svo beri til að eg mætti blindur sigrast á þeim er mig sigraði sofanda? Svo heilir, drepum Ólaf digra. Hann óttast nú ekki að sér. Eg skal ráðið til setja og eigi vildi eg hendurnar til spara ef eg mætti þær nýta en það má eg eigi fyrir sakir blindleiks og skaltu fyrir því bera vopn á hann. En þegar er Ólafur er drepinn þá veit eg það af forspá að ríkið hverfur undir óvini hans. Nú kann vera að eg yrði konungur, þá skaltu vera jarl minn.“

Svo komu fortölur hans að Sveinn játaði að fylgja þessu óráði. Svo var ætlað ráðið að þá er konungur bjóst að ganga til aftansöngs stóð Sveinn úti í svölunum fyrir honum og hafði brugðið sax undir yfirhöfninni. En er konungur gekk út úr stofunni þá bar hann skjótara að en Svein varði og sá hann í andlit konunginum. Þá bliknaði hann og varð fölur sem nár og féllust honum hendur.

Konungur fann á honum hræðslu og mælti: „Hvað er nú Sveinn? Viltu svíkja mig?“

Sveinn kastaði yfirhöfninni frá sér og saxinu og féll til fóta konungi og mælti: „Allt á guðs valdi og yðru herra.“

Konungur bað menn sína taka Svein og var hann í járn settur. Þá lét konungur færa sæti Hræreks á annan pall en hann gaf grið Sveini og fór hann af landi í brott.

Konungur fékk þá Hræreki annað herbergi að sofa í en það er hann svaf sjálfur í. Svaf í því herbergi mart hirðmanna. Hann fékk til tvo hirðmenn að fylgja Hræreki dag og nótt. Þeir menn höfðu lengi verið með Ólafi konungi og hafði hann þá reynt að trúleik við sig. Ekki er þess getið að þeir væru ættstórir menn.

Hrærekur konungur gerði ýmist að hann þagði marga daga, svo að engi maður fékk orð af honum, en stundum var hann svo kátur og glaður að þeim þótti að hverju orði gaman því er hann mælti en stundum mælti hann mart og þó illt einu. Svo var og að stundum drakk hann hvern af stokki og gerði alla ófæra er nær honum voru en oftast drakk hann lítið. Ólafur konungur fékk honum vel skotsilfur. Oft gerði hann það, þá er hann kom til herbergis áður hann lagðist til svefns, að hann lét taka inn mjöð, nokkurar byttur, og gaf að drekka öllum herbergismönnum. Af því varð hann þokkasæll.