Heimskringla/Ólafs saga helga/91
Menn mæltu allmisjafnt til Rögnvalds jarls. Töldu sumir að hann væri sannur vinur Ólafs konungs en sumum þótti ekki trúlegt og kváðu hann ráða mundu því við Svíakonung að hann héldi orð sín og sáttmál þeirra Ólafs konungs digra.
Sighvatur skáld var vinur mikill Rögnvalds jarls í orðum og talaði oft um það fyrir Ólafi konungi. Hann bauð konungi að fara á fund Rögnvalds jarls og njósna hvers hann yrði var frá Svíakonungi og freista ef hann mætti nokkurri sætt við koma. Konungi líkaði það vel því að honum þótti gott fyrir trúnaðarmönnum sínum að tala oftlega um Ingigerði konungsdóttur.
Öndurðan vetur fór Sighvatur skáld og þeir þrír saman úr Borg og austur um Markir og svo til Gautlands.
En áður þeir skildust Ólafur konungur og Sighvatur þá kvað hann vísu:
- Nú sittu heill, en hallar
- hér finnumst meir þinnar,
- at uns eg kem vitja,
- Ólafr konungr, mála.
- Skáld biðr hins, að haldi
- hjálmdrífu viðr lífi,
- endist leyfð, og landi,
- lýk eg vísu nú, þvísa.
- Nú eru mælt, en mála
- meir kunnum skil fleiri,
- orð þau er oss um varða
- alls mest, konungr, flestra.
- Guð láti þig gæta,
- geðharðr konungr, jarðar,
- víst hefi eg þann, því að þinnar,
- þú ert til borinn, vilja.
Síðan fóru þeir austur til Eiða og fengu illt far yfir ána, eikjukarfa nokkurn, og komust nauðulega yfir ána.
Sighvatur kvað:
- Lét eg til Eiðs, því að óðumsk
- aftrhvarf, dreginn karfa,
- vér stilltum svo, valtan,
- vátr til glæps á báti.
- Taki hlægiskip hauga
- herr. Sáka eg far verra.
- Lét eg til heims á hrúti
- hætt. Fór betr en eg vætta.
Síðan fóru þeir um Eiðaskóg: Sighvatur kvað vísu:
- Vara fyrst, er eg rann rastir
- reiðr um skóg frá Eiðum,
- maðr um veit, að eg mætti
- meinum, tólf og eina.
- Hykk á fót, en flekkum
- féll sár á il hvára,
- hvasst gengum þó þingað
- þann dag, konungsmönnum.
Síðan fóru þeir um Gautland og komu að kveldi á þann bæ er Hof heitir. Þar var byrgð hurð og komust þeir eigi inn. Hjónin segja að þar var heilagt. Braut hurfu þeir þaðan.
Sighvatur kvað:
- Réð eg til Hofs að hæfa.
- Hurð var aftr en spurðumst,
- inn setti eg nef nenninn
- niðrlútt, fyr útan.
- Orð gat eg fæst af fyrðum,
- flögð bað eg, en þau sögðu,
- hnekktumk heiðnir rekkar,
- heilagt, við þau deila.
Þá kom hann að öðrum garði. Stóð þar húsfreyja í durum, bað hann ekki þar inn koma, segir að þau ættu álfablót.
Sighvatur kvað:
- „Gakkattu inn,“ kvað ekkja,
- „armi drengr, en lengra.
- Hræðumst eg við Óðins,
- erum heiðnir vér, reiði.“
- Rýgr kvaðst inni eiga,
- óþekk, sú er mér hnekkti,
- álfablót, sem úlfi
- ótvín, í bæ sínum.
Annað kveld kom hann til þriggja búanda og nefndist hver þeirra Ölvir og ráku hann allir út.
Sighvatur kvað:
- Nú hafa hnekkt, þeir er hnakka,
- heinflets, við mér settu,
- þeygi bella þollar,
- þrír samnafnar, tíri.
- Þó sjáumst hitt að hlæðir
- hafskíðs muni síðan
- út hver, er Ölvir heitir,
- alls mest reka gesti.
Þá fóru þeir enn um kveldið og hittu hinn fjórða búanda og var sá kallaður bestur þegn þeirra. Út rak sá hann.
Sighvatur kvað:
- Fór eg að finna báru,
- fríðs vænti eg mér, síðan
- brjót, þann er bragnar létu,
- bliks, vildastan miklu.
- Grefs leit við mér gætir
- gerstr. Þá er illr hinn versti,
- lítt reiði eg þó lýða
- löst, ef sjá er hinn basti.
- Missti eg fyr austan
- Eiðaskóg á leiðu
- Ástu bús, er eg æsti
- ókristinn hal vistar.
- Ríks fannka eg son Saxa.
- Saðr var engr fyr þaðra,
- út var eg eitt kveld heitinn,
- inni, fjórum sinnum.
En er þeir komu til Rögnvalds jarls þá segir jarl að þeir hefðu haft erfiða ferð.
Sighvatur kvað:
- Átt hafa sér, þeir er sóttu,
- sendimenn fyr hendi
- Sygna grams, með sagnir
- siklinga, för mikla.
- Spörðumst fæst, en fyrða
- föng eru stór við göngur.
- Vörðr réð nýtr því, er norðan,
- Nóregs, þinig fórum.
- Drjúggenginn var drengjum,
- drengr magnar lof þengils,
- austr til jöfra þrýstis
- Eiðaskógr á leiðu.
- Skyldit mér, áðr mildan
- minn drottin kom eg finna,
- hlunns af hilmis runnum
- hnekkt dýrloga bekkjar.
Rögnvaldur jarl gaf Sighvati gullhring. Ein kona mælti að hann hafði gengið til nokkurs með þau hin svörtu augu.
Sighvatur kvað:
- Oss hafa augun þessi
- íslensk, konan, vísað
- brattan stíg að baugi
- björtum langt hin svörtu.
- Sjá hefir, mjöð-Nannan, manni
- mínn ókunnar þínum
- fótr á fornar brautir
- fulldrengila gengið.
En er Sighvatur kom heim til Ólafs konungs og hann gekk inn í höllina, hann kvað og sá á veggina:
- Búa hilmis sal hjálmum
- hirðmenn, þeir er svan grenna,
- hér sé eg, bens, og brynju,
- beggja kost á veggjum.
- Því á ungr konungr engi,
- ygglaust er það, dyggra
- húsbúnaði að hrósa.
- Höll er dýr með öllu.
Síðan segir hann frá ferðum sínum og kvað vísur þessar:
- Hugstóra bið eg heyra,
- hressfær jöfur, þessar,
- þoldi eg vos, hve vísur,
- verðung, um för gerðak.
- Sendr var eg upp af öndrum
- austr, svaf eg fátt á hausti,
- til Svíþjóðar, síðan,
- svanvangs í för langa.
En er hann talaði við konung kvað hann:
- Lét eg við yðr, er ítran,
- Ólafr, hugað málum,
- rétt, er ríkan hittak
- Rögnvald, konungr, haldið.
- Deildi eg mál hins milda,
- málma vörðs, í görðum
- harða mörg, né eg heyrði
- heiðmanns tölur greiðri.
- Þik bað, sólar sökkvir,
- sínn halda vel, Rínar,
- hvern, er hingað árnar,
- húskarl nefi jarla.
- En hver, er austr vill sinna,
- jafnvist er það Lista
- þengill, þinna drengja
- þar á hald und Rögnvaldi.
- Fólk réð um sig, fylkir,
- flest, er eg kom vestan,
- ætt sem áðr um hvatti
- Eiríks svika þeira.
- En því að jarla frænda,
- eins því er tókst af Sveini,
- yðr kveð eg, jörð er náðuð,
- Úlfs bróður, lið stóðust.
- Spakr lét Úlfr meðal ykkar,
- Ólafr, tekið málum,
- þétt fengum svör, sátta,
- sakar leggið þið beggja.
- Þér lét, þjófa rýrir,
- þær, sem engar væru
- riftar reknar heiftir,
- Rögnvaldr, gefið, aldar.
Öndurðan vetur fór Sighvatur skáld og þeir þrír saman úr Borg og austur um Markir og svo til Gautlands og fékk í þeirri ferð oftlega illar viðurtekjur. Á einu kveldi kom hann til þriggja búenda og ráku hann allir út. Þá kvað Sighvatur skáld Austurfararvísur um ferð sína.
Sighvatur skáld kom til Rögnvalds jarls og var þar í góðum fagnaði langa hríð. Þá spurði hann það af ritsendingum Ingigerðar konungsdóttur að til Ólafs Svíakonungs höfðu komið sendimenn Jarisleifs konungs austan úr Hólmgarði að biðja Ingigerðar dóttur Ólafs Svíakonungs til handa Jarisleifi og það með að Ólafur konungur tók þessu allvænt.
Þá kom og til hirðar Rögnvalds jarls Ástríður dóttir Ólafs konungs. Var þar þá ger veisla mikil. Gerist Sighvatur brátt málkunnigur konungsdóttur. Kannaðist hún við hann og kynferði hans því að Óttar skáld systursonur Sighvats, hann hafði þar lengi verið í kærleikum með Ólafi Svíakonungi. Var þá mart talað.
Spurði Rögnvaldur jarl hvort Ólafur Noregskonungur mundi fá vilja Ástríðar. „Og ef hann vill það,“ segir hann, „þá vænti eg þess að um þetta ráð spyrjum vér ekki Svíakonung eftir.“
Slíkt sama mælti Ástríður konungsdóttir.
Eftir það fóru þeir Sighvatur heim og komu litlu fyrir jól til Borgar á fund Ólafs konungs. Brátt segir Sighvatur Ólafi konungi þau tíðindi sem hann hafði spurt. Var konungur fyrst allókátur er Sighvatur segir honum bónorð Jarisleifs konungs og segir Ólafur konungur að honum var ills eins von að Svíakonungi „nær sem vér fáum honum goldið með nokkurum minningum.“
En er frá leið spurði konungur Sighvat margra tíðinda austan af Gautlandi. Sighvatur segir honum mikið frá fríðleik og málsnilld Ástríðar konungsdóttur og svo að það mæltu allir menn þar að hún væri að engum hlut verr um sig en Ingigerður systir hennar. Konungi féllst það vel í eyru. Sagði Sighvatur honum allar ræður þær er þau Ástríður höfðu mælt sín í millum og fannst konungi mart um þetta og mælti það: „Eigi mun Svíakonungur það hyggja að eg muni þora að fá dóttur hans fyrir utan hans vilja.“
En ekki var þetta mál borið fyrir fleiri menn. Ólafur konungur og Sighvatur skáld töluðu oft um þetta mál. Konungur spurði Sighvat vandlega að, hvað hann kannaði af, um Rögnvald jarl, „hver vinur hann er vor,“ segir hann.
Sighvatur segir svo að jarl væri hinn mesti vinur Ólafs konungs. Sighvatur kvað þá:
- Fast skaltu, ríkr, við ríkan
- Rögnvald, konungr, halda,
- hann er þýðr að þinni
- þörf nátt og dag, sáttum.
- Þann veit eg, þinga kennir,
- þik bestan vin miklu
- á Austrvega eiga,
- allt með grænu salti.
Eftir jólin fóru þeir Þórður skotakollur, systursonur Sighvats skálds, og annar skósveinn Sighvats leynilega frá hirðinni. Þeir fóru austur á Gautland. Þeir höfðu farið áður um haustið austur þangað með Sighvati. En er þeir komu til hirðar jarls þá báru þeir fram fyrir jarl jartegnir þær er þeir jarlinn og Sighvatur höfðu gert með sér að skilnaði. Þeir höfðu og þar jartegnir þær er Ólafur konungur sjálfur hafði sent jarli af trúnaði.
Þegar jafnskjótt býst jarl til ferðar og með honum Ástríður konungsdóttir og höfðu nær hundraði manna og valið lið bæði af hirðinni og af ríkum bóndasonum og vandaðan sem mest allan búnað, bæði vopn og klæði og hesta, riðu síðan norður til Noregs til Sarpsborgar, komu þar að kyndilmessu.