Heimskringla/Ólafs saga helga/96


Svo er sagt að á dögum Haralds hins hárfagra Noregskonungs byggðust Orkneyjar en áður var þar víkingabæli. Sigurður hét hinn fyrsti jarl í Orkneyjum, hann var sonur Eysteins glumru og bróðir Rögnvalds Mærajarls, en eftir Sigurð Guttormur sonur hans einn vetur. Eftir hann tók jarldóm Torf-Einar sonur Rögnvalds jarls og var lengi jarl og ríkur maður.

Hálfdan háleggur sonur Haralds hárfagra fór á hendur Torf-Einari og rak hann á brott úr Orkneyjum. Einar kom þá aftur og drap Hálfdan í Rínansey. Eftir það fór Haraldur konungur með her í Orkneyjar. Einar flýði þá upp á Skotland. Haraldur konungur lét Orkneyinga sverja sér öll óðul sín. Eftir það sættust þeir konungur og jarl og gerðist jarl hans maður og tók lönd í lén af konungi og skyldi enga gjalda skatta af því að þar var herskátt mjög. Jarl galt konungi sex tigu marka gulls. Þá herjaði Haraldur konungur á Skotland svo sem getið er í Glymdrápu.

Eftir Torf-Einar réðu fyrir löndum synir hans: Arnkell, Erlendur, Þorfinnur hausakljúfur. Á þeirra dögum kom af Noregi Eiríkur blóðöx og voru þá jarlar honum lýðskyldir. Arnkell og Erlendur féllu í hernaði en Þorfinnur réð löndum og varð gamall. Synir hans voru Arnfinnur, Hávarður, Hlöðvir, Ljótur, Skúli. Móðir þeirra var Grélöð dóttir Dungaðar jarls af Katanesi. Móðir hennar var Gróa dóttir Þorsteins rauðs.

Á dögum Þorfinns jarls ofarlega komu af Noregi synir Blóðöxar þá er þeir höfðu flúið fyrir Hákoni jarli. Var þá í Orkneyjum mikill yfirgangur þeirra. Þorfinnur jarl varð sóttdauður. Eftir hann réðu löndum synir hans og eru miklar frásagnir frá þeim. Hlöðvir lifði þeirra lengst og réð þá einn löndum. Sonur hans var Sigurður digri er jarldóm tók eftir hann. Hann var ríkur og hermaður mikill. Á hans dögum fór Ólafur Tryggvason úr vesturvíking með liði sínu og lagði til Orkneyja og tók höndum Sigurð jarl í Rögnvaldsey. Hann lá þar fyrir einskipa. Ólafur konungur bauð þá fjörlausn jarli að hann skyldi taka skírn og trú rétta og gerast hans maður og bjóða kristni um allar Orkneyjar. Ólafur konungur tók í gísling son hans er hét Hundi eða Hvelpur. Þaðan fór Ólafur til Noregs og varð þar konungur. Hundi var með Ólafi konungi nokkura vetur og andaðist hann þar en síðan veitti Sigurður jarl enga lýðskyldu Ólafi konungi. Hann gekk þá að eiga dóttur Melkólms Skotakonungs og var þeirra son Þorfinnur. Enn voru synir Sigurðar jarls hinir eldri: Sumarliði, Brúsi, Einar rangmunnur.

Fimm vetrum eða fjórum eftir fall Ólafs Tryggvasonar fór Sigurður jarl til Írlands en hann setti sonu sína hina eldri að ráða löndum. Þorfinn sendi hann til Skotakonungs móðurföður síns. Í þeirri ferð féll Sigurður jarl í Brjánsorustu. En er það spurðist til Orkneyja þá voru þeir bræður til jarla teknir, Sumarliði, Brúsi, Einar, og skiptu löndum í þriðjunga með sér.

Þorfinnur Sigurðarson var þá fimm vetra er Sigurður jarl féll. En er fall hans spurðist til Skotakonungs þá gaf konungur Þorfinni frænda sínum Katanes og Suðurland og jarlsnafn með og fékk menn til að stýra ríkinu með honum. Þorfinnur jarl var þegar í uppvexti bráðger að öllum þroska. Hann var mikill og sterkur, ljótur maður. Og þegar er honum óx aldur var það auðsýnt að hann var ágjarn maður, harður og grimmur og forvitri. Þess getur Arnór jarlaskáld:

Gör lést grund að verja
geðfrækn og til sækja,
æri Einars hlýra,
engr maðr und skýranni.