Heimskringla/Ólafs saga kyrra/1

Heimskringla - Ólafs saga kyrra
Höfundur: Snorri Sturluson
1. Saga Ólafs konungs kyrra


Ólafur var einn konungur yfir Noregi eftir andlát Magnúss bróður síns. Ólafur var maður mikill á allan vöxt og vel vaxinn. Það er allra manna sögn að engi maður hafi séð fegra mann eða tígulegra sýnum. Hann hafði gult hár sem silki og fór afar vel, bjartan líkam, eygður manna best, limaður vel, fámálugur oftast og ekki talaður á þingum, glaður við öl, drykkjumaður mikill, málrætinn og blíðmæltur, friðsamur meðan hans ríki stóð.

Þess getur Steinn Herdísarson:

Lönd vill þengill Þrænda,
þat líkar vel skötnum,
öll við ærna snilli
eggdjarfr í frið leggja.
Hugnar þjóð það er þegna
þrályndr til friðmála
kúgar Engla ægir.
Ólafr borinn sólu.