Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/1
Hákon Aðalsteinsfóstri var þá á Englandi er hann spurði andlát Haralds konungs föður síns. Bjóst hann þá þegar til ferðar. Fékk Aðalsteinn konungur honum lið og góðan skipakost og bjó hans för allveglega og kom hann um haustið til Noregs. Þá spurði hann fall bræðra sinna og það að Eiríkur konungur var þá í Víkinni. Sigldi þá Hákon norður til Þrándheims og fór á fund Sigurðar Hlaðajarls er allra spekinga var mestur í Noregi og fékk þar góðar viðtökur og bundu þeir lag sitt saman. Hét Hákon honum miklu ríki ef hann yrði konungur.
Þá létu þeir stefna þing fjölmennt og á þinginu talaði Sigurður jarl af hendi Hákonar og bauð bóndum hann til konungs. Eftir það stóð Hákon sjálfur upp og talaði. Mæltu þá tveir og tveir sín á milli að þar væri þá kominn Haraldur hinn hárfagri og orðinn ungur í annað sinn.
Hákon hafði það upphaf síns máls að hann beiddi bændur að gefa sér konungsnafn og það með að veita sér fylgd og styrk til að halda konungdóminum en þar í mót bauð hann þeim að gera alla bændur óðalborna og gefa þeim óðul sín er á bjuggu.
Að þessu erindi varð rómur svo mikill að allur búandamúgurinn æpti og kallaði að þeir vildu hann til konungs taka. Og var svo gert að Þrændir tóku Hákon til konungs um allt land. Þá var hann fimmtán vetra. Tók hann sér þá hirð og fór yfir land.
Þau tíðindi spurðust á Upplönd að Þrændir höfðu sér konung tekið slíkan að öllu sem Haraldur hinn hárfagri var, nema það skildi að Haraldur hafði allan lýð í landi þrælkað og áþjáð en þessi Hákon vildi hverjum manni gott og bauð aftur að gefa bóndum óðul sín, þau er Haraldur konungur hafði af þeim tekið. Við þau tíðindi urðu allir glaðir og sagði hver öðrum. Flaug það sem sinueldur allt austur til landsenda. Margir bændur fóru af Upplöndum að hitta Hákon konung, sumir sendu menn, sumir gerðu orðsendingar og jartegnir, allir til þess að hans menn vildu gerast. Konungur tók því þakksamlega.