Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/13

Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
13. Frá Hákoni konungi

Hákon konungur var vel kristinn er hann kom í Noreg. En fyrir því að þar var land allt heiðið og blótskapur mikill og stórmenni mart, en hann þóttist liðs þurfa mjög og alþýðuvinsæld, þá tók hann það ráð að fara leynilega með kristninni, hélt sunnudaga og frjádagaföstu. Hann setti það í lögum að hefja jólahald þann tíma sem kristnir menn og skyldi þá hver maður eiga mælis öl en gjalda fé ella og halda heilagt meðan öl ynnist. En áður var jólahald hafið hökunótt. Það var miðsvetrarnótt og haldin þriggja nátta jól.

Hann ætlaði svo, er hann festist í landinu og hann hefði frjálslega undir sig lagt allt land, að hafa þá fram kristniboð. Hann gerði svo fyrst að hann lokkaði þá menn er honum voru kærstir til kristni. Kom svo með vinsæld hans að margir létu skírast en sumir létu af blótum. Hann sat löngum í Þrándheimi því að þar var mestur styrkur landsins.

En er Hákon konungur þóttist fengið hafa styrk af nokkurum ríkismönnum að halda upp kristninni þá sendi hann til Englands eftir biskupi og öðrum kennimönnum. Og er þeir komu í Noreg þá gerði Hákon konungur það bert að hann vildi bjóða kristni um allt land. En Mærir og Raumdælir skutu þannug sínu máli sem Þrændir voru. Hákon konungur lét þá vígja kirkjur nokkurar og setti þar presta til.

En er hann kom í Þrándheim þá stefndi hann þing við bændur og bauð þeim kristni. Þeir svara svo að þeir vilja þessu máli skjóta til Frostaþings og vilja þá að þeir komi úr öllum fylkjum þeim sem eru í Þrændalögum, segja að þá munu þeir svara þessu vandmæli.