Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/30

Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
30. Frá fylking Hákonar konungs

Hákon konungur hafði þá fylkt liði sínu og segja menn svo að konungur steypti af sér brynjunni áður orusta tókst.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir í Hákonarmálum:

Bróður fundu þær Bjarnar
í brynju fara,
konung hinn kostsama,
kominn und gunnfána.
Drúptu dólgráar
en darraðr hristist.
upp var þá hildr um hafið.
Hét á Háleygi
sems á Hólmrygi
jarla einbani,
fór til orustu.
Gott hafði hinn göfgi
gengi Norðmanna
ægir Eydana,
stóð und árhjálmi.
Hrauðst úr hervoðum,
hratt á völl brynju
vísi verðungar,
áðr til vígs tæki.
Lék við ljóðmögu,
skyldi land verja
gramr hinn glaðværi,
stóð und gullhjálmi.

Hákon konungur valdi mjög menn í hirð með sér að afli og hreysti svo sem gert hafði Haraldur konungur faðir hans. Þórálfur hinn sterki Skólmsson var þar og gekk á aðra hlið konungi. Hann hafði hjálm og skjöld, kesju og sverð það er kallað var Fetbreiður. Það var kallað að þeir Hákon konungur væru jafnsterkir.

Þess getur Þórður Sjáreksson í drápu þeirri er hann orti um Þórálf:

Þar er böðharðir börðust
bands jódraugar landa,
lystr gekk her til hjörva
hnits í Storð á Fitjum,
og gimslöngvir ganga
gífrs hlémána drífu
nausta blakks hið næsta
Norðmanna gram þorði.

En er fylkingar gengu saman varð þar orusta óð og mannskæð. Og er menn höfðu skotið spjótum þá brugðu menn sverðum. Gekk þá Hákon konungur og Þórálfur með honum fram um merkið og hjó til beggja handa.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Svo beit þá sverð
úr siklings hendi
voðir Váfaðar
sem í vatn brygði.
Brökuðu broddar.
Brotnuðu skildir.
Glumruðu glymringar
í gotna hausum.
Tröddust törgur
fyr Týs og bauga
hjalta harðfótum
hausar Norðmanna.
Róma varð í eyju.
Ruðu konungar
skírar skjaldborgir
í skatna blóði.

Hákon konungur var auðkenndur, meiri en aðrir menn. Lýsti og af hjálminum er sólin skein á. Var vopnaburður mikill að honum. Þá tók Eyvindur Finnsson hött og setti yfir hjálm konungs.