Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/19
Hákon konungur lagði þá land allt undir sig og skipaði allar sýslur sínum mönnum og svo kaupstaði. Þeir Hákon konungur og hans menn höfðu stefnur sínar í Hallvarðskirkju er þeir réðu landráðum. Kristín konungsdóttir gaf fé til presti þeim er kirkjulukla varðveitti að hann leyndi manni hennar í kirkjunni svo að sá mætti heyra hjal þeirra Hákonar. En er hún varð vör við hvað þeir réðu sendi hún orð til Björgynjar Erlingi skakka bónda sínum, þau að hann skyldi aldrei trúa þeim.