Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/6


Erlingur skakki svaraði ræðu konungs: „Skyldur em eg konungur að þegja eigi við ræðu yðarri. En ef þér viljið forvitnast hvað mín ráðagerð mun vera þá skal eg yður láta það heyra. Þessi ætlan er nú er sett er þvert frá mínu skapi því að eg kalla þetta vera ófæru, að berjast við þá að svo búnu þótt vér höfum lið mikið og frítt. Ef vér skulum veita þeim atlögu og róa ástraum þenna í móti, þar er þrír menn eru í hálfrými þá verður einn að róa en annar að hlífa þeim. Hvað er þá nema einn þriðjungur liðs vors muni til vera að berjast? Líst mér svo sem óvíglega muni þeir komast við orustu er við árarnar eru og bökum horfa við óvinum sínum. Gefið mér tómstund til ráðagerðar en eg heiti því það í mót að eg skal það ráð þar til finna, fyrr en þrír dagar séu liðnir, að hóglegar skulum vér við komast að leggja á fund þeirra.“

Og fannst það mjög í ræðu Erlings að hann latti atlögunnar og eigi að síður eggjuðu margir aðrir og kváðu þá Hákon mundu hlaupa á land upp enn sem fyrr „og höfum vér þá þeirra ekki,“ segja þeir, „en þeir hafa nú lítið lið og höfum vér ráð þeirra allt í hendi.“

Gregoríus ræddi um fám orðum og sneiddi svo til sem Erlingi gengi mjög það til, er hann latti atlögunnar, að hann vildi þau ráð ónýta, er Gregoríus lagði til, heldur en hitt að hann kynni þetta gerr að sjá en allir aðrir.